136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

málefni Ríkisútvarpsins.

[14:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil gera málefni Ríkisútvarpsins að umtalsefni hér í dag enda er ástandið þar að mörgu leyti áhyggjuefni. Nú á dögunum var sagt upp fjölda fólks á fréttasviði stofnunarinnar en frá áramótum hefur fækkað um 25 stöðugildi á fréttasviðinu á sama tíma og þörfin fyrir sjálfstæðan og vandaðan fréttaflutning úti í samfélaginu hefur aldrei verið meiri.

Þetta eru ekki réttu skilaboðin til almennings í landinu sem kallar eftir vandaðri umfjöllun og upplýsingum um ástand mála. Fréttamenn sem kom á fund menntamálanefndar Alþingis í síðustu viku lýstu miklum áhyggjum af stöðu fréttastofunnar, að hún væri í raun orðin of fámenn til að standa undir þeirri starfsemi sem ætlast er til. Við köllum eftir því að fjórða valdið, fjölmiðlar, standi sig og þar hafa stjórnvöld ákveðnar skyldur, að tryggja að ríkisútvarp í almenningseign geti starfað við góð skilyrði. Lykilatriði er auðvitað þar á meðal að fréttastofa RÚV geti sinnt hlutverki sínu með sóma og að fréttamenn geti kafað dýpra í einstök mál en starfi ekki undir eilífri pressu um að skila af sér fréttum í akkorði. Raunar má segja að atburðarásin innan Ríkisútvarpsins hafi verið með hreinum ólíkindum að undanförnu. Á sama tíma og útvarpsstjóri í hinu opinbera hlutafélagi hefur eina og hálfa milljón á mánuði er mun lægra launuðu starfsfólki á fréttastofu sagt upp. Launabilið hefur aukist jafnt og þétt í hinu nýja fyrirtæki sem svo er kallað og laun útvarpsstjóra fyrir þessa breytingu voru jú helmingi lægri en þau eru nú. Á sama tíma er launakostnaður orðinn ógagnsær, fólk ber jafnvel fyrir sig launaleynd þegar það er spurt. Starfsmenn búa við erfiðar aðstæður þar sem hótanir um brottrekstur og launalækkanir hafa verið hafðar í frammi. Skýringar eru ekki gefnar á brottrekstri, hamagangurinn er slíkur að trúnaðarmaður er rekinn í miðjum samningaviðræðum sem er ólöglegt enda sáu stjórnendur RÚV að sér og drógu uppsögnina til baka eftir að Rafiðnaðarsambandið blandaði sér í málið og mótmælti uppsögninni. Slík vinnubrögð eru ekki til þess fallin að vekja traust.

Niðurskurðurinn virðist heldur ekki fylgja nokkurri áætlun, honum virðist kannski fyrst og fremst ætlað að vekja usla. Það er hótað að leggja niður morgunleikfimi. Svo er hætt við. Næst er hótað að leggja niður svæðisstöðvarnar. Svo er hætt við. Og ég velti því fyrir mér hvort það er ekki ástæða til þess að menntamálanefnd fái einhverjar áætlanir í hendur um hvernig þessum niðurskurði eigi að vera háttað svo þetta fari ekki hreinlega í að eitt sé nefnt í dag og annað á morgun, hætt við eitt á morgun og annað hinn daginn.

Ég velti fyrir mér ábyrgð stjórnvalda gagnvart Ríkisútvarpinu. Auðvitað er kannski fyrsta spurningin sú að velta því upp hvort ekki sé eðlilegt að ríkið verji sín störf þegar efnahagskreppa eins og sú sem nú gengur yfir stendur yfir, hvort við viljum auka enn á atvinnuleysið með uppsögnum hjá ríkisstofnunum. Í öðru lagi spyr ég hvort stjórnvöldum beri ekki skylda til að tryggja almannafjölmiðlinum Ríkisútvarpinu öruggt starfsumhverfi svo fréttamenn og aðrir geti sinnt skyldum sínum.

Nú er á leiðinni frumvarp um útvarpsgjald og hugsanlegar takmarkanir Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Ég reikna með að hæstv. ráðherra muni gera grein fyrir þessum hugmyndum á eftir. Ég ítreka þó mikilvægi þess að framlög til Ríkisútvarpsins séu tryggð og að stofnunin þurfi ekki að ráðast í niðurskurð. Vandi Ríkisútvarpsins er ekki síst sá að á einu og hálfu ári hafa 800 millj. sem RÚV ohf. fékk sem tannfé í eigið fé brunnið upp. Fjármagnskostnaður af lífeyrisskuldbindingum umfram það sem áætlað var hefur verið 400 millj. árlega. Við þetta hafa bæst skuldir af útvarpshúsinu. Ég spyr líka hæstv. ráðherra hvort ekki komi til greina að ríkið yfirtaki þessar lífeyrisskuldbindingar eins og gert hefur verið með önnur opinber hlutafélög.

Í þriðja lagi hefur breyting Ríkisútvarpsins yfir í ohf. orðið til þess að stjórnvöld standa í auknum mæli á hliðarlínunni og axla ekki ábyrgð á Ríkisútvarpinu eða hafi sú orðið raunin er ábyrgð vísað eingöngu til stjórnenda stofnunarinnar. Hvar liggur ábyrgð okkar alþingismanna og ráðherra?

Núverandi kerfi virðist reynast illa eins og raunar var spáð hér í þingsal. Breytingin yfir í opinbert hlutafélag hefur gert það að verkum að launabil og ójöfnuður hafa aukist, aðferðir við ráðningar og brottrekstur lúta sannarlega ekki reglum um gagnsæi, niðurskurður virðist ráðast af geðþótta og ekki vera byggður á rökum, a.m.k. er hætt við niðurskurðaraðgerðir sem virðast of óvinsælar sem segir mér það eitt að þær eru ekki byggðar á rökum, heldur eru tilviljanakenndar. Starfsmenn hafa sem stendur engan fulltrúa í stjórn og koma því ekki beint að málum. Ég spyr því að lokum hæstv. ráðherra: Þarf ekki að endurskoða stöðu Ríkisútvarpsins í ljósi reynslunnar af því hvernig hið opinbera hlutafélagaform hefur reynst þessari stofnun, stofnun sem ég vil trúa að við viljum standa vörð um og tryggja hag?