136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

málefni Ríkisútvarpsins.

[14:28]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög þessari umræðu vegna þess að staðan sem uppi er — og ég tek undir með hv. þingmönnum — mjög alvarleg. Ég vil líka taka undir með hv. málshefjanda að staðan á fréttastofu RÚV er mjög alvarleg, sérstaklega í ljósi stöðunnar sem uppi er í þjóðfélaginu og aldrei hefur verið eins mikilvægt og akkúrat núna að við höfum öflugan fréttaflutning og rannsóknarblaðamennsku á því sem í gangi er, þannig að fjórða valdið geti sinnt hlutverki sínu.

Ég er ekki sammála því að staða RÚV verði skýrð með almennum þrengingum á fjölmiðlamarkaði og hafi ekkert með rekstrarformið í núverandi mynd að gera. Að mínu mati — og ég hef alltaf talið það — er rekstrarformið mjög óheppilegt, ekki síst vegna þess að við setjum tæplega 3 milljarða kr. af almannafé inn í stofnunina eða fyrirtækið, sem svo heitir og tilheyrir svokölluðum E-hluta í rekstri ríkisins. Þegar þetta rekstrarform, virðulegi forseti, var sett á í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar var ákveðin tíska sem hafði gengið um lönd að breyta opinberum þjónustustofnunum í hlutafélög. Þetta var ákaflega umdeilt og gagnrýnt bæði frá hægri og vinstri. Frá vinstri vegna þess að menn litu svo á að þetta væri undanfari einkavæðingar en frá hægri vegna þeirrar staðreyndar, sem ég tek fullkomlega undir, að fyrirtækið er rekið á markaði, á markaðslegum forsendum en fær gríðarlegt magn af almannafé, í fjárlögum er gert ráð fyrir tæplega þremur milljörðum. (VS: Hvað vill þingmaðurinn gera?) Þess vegna, virðulegi forseti, tel ég afar mikilvægt að þessu sé haldið til haga og þegar um er að ræða jafnmikilvæga stofnun og Ríkisútvarpið verðum við alltaf að hafa allt uppi á borðinu. Við megum ekki falla í kreddur heldur verðum (Forseti hringir.) við að skoða þennan þátt jafnt á við aðra til að efla þá mikilvægu (Forseti hringir.) stofnun sem Ríkisútvarpið er.