136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

málefni Ríkisútvarpsins.

[14:34]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Aðeins varðandi síðasta atriðið, menn verða líka að tala hreint út. Ætla menn þá að skila stofnuninni með halla eða stórhækka afnotagjöldin? Það er ekki hægt að gera allt í þessu. Þá verða menn annaðhvort að segja: Ég ætla að skila Ríkisútvarpinu með verulegum halla eða stórhækka afnotagjöld.

Þess vegna segi ég: Þessi breyting varð til góðs því að við getum ekki skilað þessari ríkisstofnun með halla. Það þarf að taka á rekstrinum. Það er ábyrgð.

Ég fagna því hins vegar sérstaklega, herra forseti, að það eru ekki mjög skiptar skoðanir hér í salnum. Við erum nokkurn veginn öll sammála um að við viljum hafa öflugt ríkisútvarp. Við viljum líka hafa fjölbreytta flóru á fjölmiðlamarkaði. Við viljum hafa hér fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Og hvernig ætlum við þá að samræma þær tillögur sem fram koma til þess að stuðla að þessu, sterku ríkisútvarpi annars vegar og hins vegar fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði?

Þar erum við hins vegar ekki endilega sammála um leiðir. Þess vegna tel ég mikilvægt að þingið fái frumvarp mitt um Ríkisútvarpið sem fyrst til afgreiðslu og umræðu, til þess einmitt að varða veginn hvaða möguleika er best að nota og hvaða leiðir best að fara varðandi það að skerða hlutdeild Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og hvaða leiðir við ætlum að fara til að styrkja aðeins betur undirstöður annarra fjölmiðla.

Eins og ég sagði áðan ætlum við ekki að veikja Ríkisútvarpið. Við ætlum hins vegar að hleypa meira súrefni inn á hinn frjálsa og einkarekna markað sem veitir ekki af á þessum tímum. Ef þingið kemur með aðra tillögu sem við getum fylkt okkur um til þess að efla þessa tvo þætti er það fínt og við sameinumst að sjálfsögðu um þá þætti.

Ég tek undir margt af því sem kom hér fram, við viljum sterkt ríkisútvarp. Ég treysti því að stjórnendur Ríkisútvarpsins geri sér grein fyrir mikilvægu hlutverki sínu, þ.e. að halda áfram öflugu ríkisútvarpi og það reki áfram öfluga fréttaþjónustu. Það er í þágu allra landsmanna, ekki síst nú á tímum.