136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[15:01]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka að eins og staða efnahagsmála á Íslandi er í dag þá eigum við að vinna allan þennan fisk innan lands. Það er algerlega skýrt. Að segja að nú séu heimildir til að flytja út óvigtaðan eða óunninn fisk, það er ekki neitt svar. Það er svona „svo skal böl bæta að benda á annað verra“-svar.

Það er eins brýnt og hugsast getur að tryggja atvinnu í landinu og ekki er víst að það gerist með þessu frumvarpi. Tilgangurinn er góður. 1. mgr. 1. gr., sem er breyting á 5. gr. laganna, mælir fyrir um meginreglu sem er síðan holuð út með reglugerðum sem maður veit ekki hvernig verða. Ég vek athygli á því enn og aftur að á fyrsta fundi nefndarinnar um málið, ég hygg að þeir hafi nú verið tveir, kallaði ég eftir reglugerðinni. Ég kallaði eftir því hvernig þetta yrði útfært en það var ekki skýrt. Það er góð lagasetning og góð aðferð löggjafarvalds að slíkar reglugerðir liggi fyrir áður en heimildir eru veittar til undanþágu. Það gerðist til að mynda í Noregi varðandi matvælafrumvarpið, þar lágu fyrir drög að reglugerðum um allt sviðið þar sem reglugerðarheimild var veitt. Ég spyr: Af hverju er það ekki gert hér?

Einnig hefði þurft að lögfesta bein ákvæði um þennan uppboðsmarkað, meginreglur um uppboðsmarkað og hvernig hann fer fram. Um þetta eiga að vera skýr ákvæði í lögum en ekki grein eins og 1. gr. þar sem fyrstu tvær línurnar eru lagasetning og hitt er valdframsal löggjafarvaldsins til framkvæmdarvaldsins, sem er algerlega óútfylltur tékki. Ég ítreka það.