136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[15:06]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar segir hér blákalt að reglugerðir skipti ekki máli. Auðvitað skipta þær grundvallarmáli. (ArnbS: Ég sagði það ekki, hvaða vitleysa er þetta?) Það er grundvallaratriði að maður sjái sviðið fyrir framan sig. Hvert á að stefna? Hversu þröngar eiga undanþáguheimildirnar að vera? Hvernig á þetta að verða? Þannig að bæði þingmenn og hagsmunaaðilar sjái fyrir sér hvað verði.

Heimildirnar eru óljósar. Við erum, og enn ítreka ég það, í miklum hremmingum atvinnuleysis og hugsanlegs landflótta og sú staðreynd liggur fyrir að fiskframleiðendum án kvóta hefur tekist að framleiða einna verðmætastar fiskafurðir á landinu. Þeir hafa verið afar fundvísir á matarholur á mörkuðum erlendis (ArnbS: Ég neita því ekki.) vegna þess að verðið hefur verið hátt og þeir hafa verið bundnir við að fá sem mest út úr fiskinum. Þess vegna er grundvallaratriði í atvinnuástandinu að þessi fiskur verði að langmestu leyti unninn innan lands. Ég vona svo sannarlega að það muni gerast með reglugerðarákvæðunum en um það ríkir alger óvissa.