136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[15:23]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég verð aðeins að bæta við þessa umræðu. Þetta er mjög merkileg umræða því við erum að tala um hvað við getum gert til þess að auka fiskvinnslu á Íslandi miðað við ríkjandi aðstæður og það fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum. Við erum að reyna að setja því nánari skorður og takmörk.

Ég verð að segja eins og er, hæstv. forseti, að mér finnst að frumvarpið muni ekki ná alveg þeim tilgangi sem menn eru þó greinilega að reyna að stefna að, sem er að tryggja að hægt sé að bjóða í allan afla hér innan lands áður en hann fer úr landi og hins vegar að tryggja að það verð eða lágmarksverð sem útgerðum er heimilt að setja á afla sinn, þ.e. kveðið er á um að það megi setja lágmarksverð til uppboðs á innlendum markaði fyrir þann afla sem fyrirhugað er að flytja úr landi, sé eðlilegt og raunhæft og ekki notað í þeim tilgangi að hindra að réttmæt og eðlileg viðskipti með fiskafla sem er boðinn á uppboðsmarkaði eigi sér stað innan lands. Þetta mundi tryggja enn frekar stöðu fiskvinnslunnar og bæta atvinnuástandið í landinu og ekki veitir nú af um þessar mundir.

Þess vegna held ég, hæstv. forseti, að mjög nauðsynlegt sé, og ég beini því til formanns hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, að milli 2. og 3. umr. verði skoðað sérstaklega hvort ekki þurfi að útfæra einhvers konar fyrirkomulag sem geri það að verkum að ef útgerðarmenn setja aftur og aftur, t.d. yfir heilan mánuð þannig verð á fiskafla sinn, þannig hámarksverð að það sé í raun og veru óraunhæft að ætlast til þess að íslensk fiskvinnsla nái upp í það verð og það verði til þess að fiskurinn fari ávallt úr landi, að þá verði það skoðað. Það er spurning hvað sé til ráða. Ég held að það sé eiginlega ekkert annað til ráða en að setja einhvers konar viðmiðun sem menn verða að standast, skoðun eftir á. Og komi það í ljós að ákveðnar útgerðir hafi sett þannig lágmarksverð, allt að 10, 15, 20% hærri en eðlileg verðmyndun gæti verið og sambærileg verðmyndun á erlendum markaði, þá hafi þeir einfaldlega t.d. tvo mánuði þar á eftir ekki heimild til að setja hámarksverð á aflann sinn og verði að una því næstu tvo mánuði að verðið sem boðið er í aflann, sem er auðvitað sams konar verðmyndun og á frjálsum markaði eins og allir aðrir sem eru að selja fisk á innlendum fiskmarkaði þurfa að una, þá yrðu þeir bara að una því að taka hæsta verðtilboði.

Þannig yrði það næstu tvo mánuði að því er varðar viðkomandi útgerð enda hef ég litið svo á að útgerðin hefði með vísvitandi hætti sett svo hátt lágmarksverð að engar líkur og engin skynsamleg rök væru fyrir því að menn hefðu keypt aflann hér innan lands. Það hefði þá komið í ljós að allur afli viðkomandi útgerðar fór alltaf úr landi og menn gátu ekki verið samkeppnisfærir við þá viðmiðun sem stóðst svo reyndar ekki þegar selt var erlendis. Mismunurinn þar á milli væri einhver X% sem menn gætu skoðað og velt fyrir sér.

Ég held að eðlilegast væri að miða þetta út frá brúttóverðinu, bæði á innlendum markaði og erlendum, frekar en að taka til kostnað erlendis. Það er auðvitað vitað um það bil hver kostnaður er við að selja á erlendum markaði og flytja fisk út í gámum og þá er hægt að setja prósentuna í samræmi við það. Á þann hátt er ætlast til þess að menn séu með svipaðar forsendur fyrir markaðssetningu á afurðum sínum, þ.e. á óunnum fiski, ferskum fiski á íslenskum fiskmörkuðum, eins og aðrir kaupendur hefðu ætlast til innan lands að því er varðar verðið.

Ég vil beina orðum mínum til formanns nefndarinnar því mér sýnist tilgangurinn vera einmitt sá sem ég er að lýsa, þ.e. að reyna að tryggja íslenskum fiskvinnslum að þær geti keypt fisk á eðlilegu verði og eðlilegri verðmyndun. En þá verður líka að sjá til þess að kerfið sé þannig uppsett að menn komist ekki upp með óeðlilega viðmiðun sem leiðir það af sér mánuðum saman að ekki einn einasti fiskur frá viðkomandi skipum lendi í sölu á innlendum markaði vegna þess að þeim er frjálst að setja hámarksverð.

Ég vænti þess, hæstv. forseti, að bæði orð mín og annarra sem hér hafa talað dugi til þess að hv. formaður nefndarinnar sjái ástæðu til þess að málið verði tekið til umræðu í nefndinni milli 2. og 3. umr. og skoðað út frá þessum forsendum. Því tilgangur frumvarpsins er, eins og við höfum bent á, að reyna að tryggja íslenskri fiskvinnslu jöfn samkeppnisskilyrði til að nálgast aflann, án þess að viðkomandi útgerðir verði fyrir skaða. En samt þannig að þeir sem hafa áhuga á að kaupa fiskinn geti keypt hann á eðlilegu verði og með eðlilegri viðmiðun.