136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

samráð ríkisstjórnarinnar við launþegasamtökin.

[15:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Íslensk þjóð hefur sjaldan, ef nokkru sinni, gengið í gegnum hremmingar í líkingu við þær sem við nú tökumst á við. Hrun efnahagskerfisins hefur haft gríðarlegar afleiðingar fyrir fjölskyldur og fyrirtæki í landinu. Stjórnvöld hafa ítrekað lýst því yfir að við séum öll á sama báti eins og það hefur verið orðað og bersýnilega ætlast til þess að þjóðin fylgdi ríkisstjórninni í þeirri vegferð sem hún er á, enda þótt það blasi við að stjórnin hafi glatað trausti þjóðarinnar.

Óvissan um það hvert ferðinni er heitið, óvissan um afkomu næstu vikur og mánuði, óvissan um það hvort fólk heldur vinnu sinni eða ekki er eitt það versta sem mætir landsmönnum dag eftir dag. Óvissan helgast af því að stjórnvöld hafa hjúpað stefnu sína og aðgerðir leynd og pukri. Lítið hefur farið fyrir samráði við hina ýmsu hagsmunaaðila, að ekki sé talað um samráð við þjóðina sjálfa því að þar sem hún kemur saman þekkir ríkisstjórnin ekki þjóð sína.

Hér hefur verið farið ítarlega yfir skort á samráði við samtök launafólks. Ég vil beina athyglinni sérstaklega að samráði, eða skorti á því öllu heldur, við sveitarfélögin í landinu. Þau eru hluti af hinu opinbera og fara með ríkt og ómetanlegt hlutverk gagnvart íbúunum. Þegar stjórnvöld voru í samningum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var sveitarfélögunum haldið utan við, jafnvel þótt ríkið hafi síðan skrifað undir margvíslegar skuldbindingar og skilmála af hálfu sjóðsins sem beint varða sveitarfélögin. Sem dæmi má nefna að gert er ráð fyrir skuldaaukningu hins opinbera úr 29% í 109% af landsframleiðslu. Hver var hlutur sveitarfélaganna í þeirri skuldaaukningu? Á sama tíma var talað um lækkun skulda. Hver var hlutur sveitarfélaganna þar? Það er gert ráð fyrir verulegum skorðum í starfsemi hins opinbera og auknum byrðum á almenning. Hvernig kemur þetta við sveitarfélögin? Svo mætti áfram telja.

Ríkisstjórnin hefur undirgengist margvíslegar skuldbindingar fyrir hönd sveitarfélaganna án þess að hafa mikið samráð við þau um það. Hið sama á við um marga aðra hagsmunaaðila eins og hér hefur komið fram. Þessi vinnubrögð, herra forseti, eru ámælisverð, það er vísasti vegur til að fá þjóðina á móti sér að tala aldrei við hana. Með því sýna stjórnvöld þjóðinni fullkomna lítilsvirðingu og stjórnvöld sem þannig (Forseti hringir.) koma fram geta ekki búist við að öðlast virðingu og traust þjóðarinnar.