136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

skattlagning kolvetnisvinnslu.

208. mál
[16:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um skattlagningu á kolvetnisvinnslu. Allt frá árinu 1997 hefur markvisst verið kannað hvort olía eða gas, sem nefnt er einu nafni kolvetni í frumvarpinu, finnist á landgrunni Íslands. Benda niðurstöður þeirra kannana til þess að góðar líkur séu á að svo sé. Í ljósi þess voru, að frumkvæði iðnaðarráðuneytisins, samþykkt á Alþingi sérstök lög árið 2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis í efnahagslögsögu Íslands. Í mars 2006 samþykkti ríkisstjórn Íslands síðan að hefja undirbúning að útgáfu leyfa til rannsókna og vinnslu kolvetnis í lögsögu Íslands, nánar tiltekið á svokölluðu Drekasvæði. Þegar hefur verið ákveðið að fyrstu leyfin til rannsókna á vinnslu kolvetnis verði boðin út fljótlega eftir áramót. Það frumvarp sem hér er kynnt er lagt fram í beinum tengslum við komandi útboð enda mikilvægt að reglur um skattlagningu kolvetnisvinnslu liggi fyrir gagnvart þeim aðilum sem hug hafa á að bjóða í leyfin.

Frumvarpið er í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um skattlagningu kolvetnisvinnslu og voru eftirtalin meginmarkmið höfð að leiðarljósi við mótun á þeim tillögum sem fram koma í frumvarpinu:

Að ríkinu verði tryggð ásættanleg hlutdeild í þeim hagnaði sem fellur til vegna nýtingar á takmarkaðri auðlind í eigu þjóðarinnar.

Að Ísland verði í skattalegu tilliti samkeppnishæft við nágrannaríki okkar.

Að skattlagning kolvetnisvinnslu á Íslandi verði einföld og skilvirk.

Með frumvarpinu er lagt til að sérlög gildi um skattskyldu og skattlagningu kolvetnisvinnslu enda um mjög sérhæfða starfsemi að ræða. Miðað er við að lagður verði sérstakur skattur, annaðhvort í formi vinnslugjalds sem er óháð afkomu vinnslunnar eða í formi kolvetnisskatts þegar vinnslan er farin að skila tilteknum lágmarkshagnaði, á alla aðila sem stunda kolvetnisvinnslu eða taka með beinum hætti þátt í öflun og dreifingu kolvetnis í lögsögu Íslands. Jafnframt munu þeir aðilar sem þessa vinnslu stunda einnig greiða skatta og önnur gjöld sem almennt eru lögð á atvinnurekstur á landi, þar með talinn 15% tekjuskatt.

Á þessari stundu ríkir hins vegar fullkomin óvissa um af hvaða stærðargráðu væntanlegar tekjur og útgjöld ríkissjóðs af mögulegri kolvetnisvinnslu hér á landi kunna að verða í framtíðinni. Talið er óraunhæft að ætla að styttri tími en 9 ár líði frá því kolvetnisvinnslufyrirtæki fær leyfi til leitar og rannsóknar þar til vinnsla getur hafist. Þá er óvarlegt að ætla að fjárfestingar þessara fyrirtækja, sem eru í eðli sínu langtímafjárfestingar, skili hagnaði fyrr en að nokkrum tíma liðnum eftir að vinnsla hefst. Með hliðsjón af þessu hefur almennt verið talið að önnur sjónarmið gildi um skattlagningu þessarar vinnslu en almennt gilda um atvinnustarfsemi, enda getur ábati ríkisins verið mikill ef vel tekst til. Samhliða þarf að tryggja að ríkið fái ásættanlega hlutdeild í þeim hagnaði sem til fellur vegna nýtingar á þessari takmörkuðu þjóðarauðlind. Þessi sjónarmið voru höfð að leiðarljósi við útfærslu á því frumvarpi sem hér um ræðir.

Frumvarpið miðar að því að lögin öðlist gildi 1. janúar 2009.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.