136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

ársreikningar.

212. mál
[16:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er lagt fram í ljósi þess ástands sem nú ríkir í efnahagslífi landsins og þeirra breytinga sem átt hafa sér stað á gengi íslensku krónunnar á árinu 2008. Sú þróun kann í sumum tilfellum að vekja upp spurningar um hvaða starfrækslugjaldmiðill, í skilningi laga um ársreikninga, gefur í raun rétta mynd af afkomu og efnahag félaga á reikningsárinu 2008. Samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum skulu stjórnendur þeirra fyrirtækja sem fara eftir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum leggja mat á, við gerð ársreiknings, hvaða starfrækslugjaldmiðill gefi sem gleggsta mynd af rekstri félagsins.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um ársreikninga skal umsókn um heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli berast ársreikningaskrá tveimur mánuðum fyrir upphaf viðkomandi reikningsárs. Verða skilyrði laganna fyrir veitingu slíkrar heimildar að vera uppfyllt þegar í upphafi reikningsársins.

Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til ákvæði til bráðabirgða við lögin sem veitir ársreikningaskrá heimild til að taka til meðferðar umsóknir um heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli annars vegar fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2008 eða síðar á því ári og hins vegar fyrir reikningsárið sem hefst 1. janúar 2009, jafnvel þótt slík umsókn berist ekki ársreikningaskrá fyrr en 15. desember 2008. Með öðrum orðum er ársreikningaskrá annars vegar heimilað að samþykkja afturvirkt slíkar beiðnir félaga fyrir reikningsárið 2008 og hins vegar er framlengdur umsóknarfrestur fyrir reikningsárið 2009. Skilyrði fyrir veitingu heimildar ársreikningaskrár eru eftir sem áður þau sem fram koma í 8. gr. ársreikningalaganna.

Með frumvarpinu er því tímabundið, með vísan til núverandi ástands efnahagsmála, verið að opna fyrir það að þeim félögum sem sannanlega uppfylla skilyrði ársreikningalaga til þess að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli á reikningsárinu 2008, en sóttu ekki um heimild til þess á árinu 2007, verði gert kleift að fá slíka heimild afturvirkt. Til jafnræðis er að sama skapi framlengdur umsóknarfrestur til 15. desember fyrir þau félög sem óska eftir að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli á reikningsárinu 2009.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.