136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[17:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er aðallega eitt sem skilur að í þessum tveimur málum, annars vegar hvort Alþingi ákveður þetta beint eða hvort reynt er að laga aðstæður að því lagaumhverfi sem fyrir er til þess að ákvarða laun þeirra aðila sem hér um ræðir. Ég sé ekki að það þurfi að vera mikill ásteytingarsteinn. Mér finnst það frekar vera virðingarvottur við kjararáð að fara ekki fram hjá því og verið er að laga aðstæður að því lagaumhverfi.

Hins vegar útilokar ekkert í frumvarpinu það sem hér um ræðir, að kjararáð útfæri síðan launalækkunina á sama hátt og gert er í því frumvarpi sem hv. þingmaður fjallaði um. Það er þá álitamál hversu langt við viljum ganga í því að grípa fram fyrir hendurnar á kjararáði, hvort við viljum leyfa kjararáði að meta það sjálft og grípa ekki meira inn í en nauðsyn krefur eða hvort hv. þingmenn vilja leggja kjararáði forskrift um hvernig það er gert. Mér finnst eðlilegt að um það verði fjallað í nefndinni hvaða aðferð menn telja skikkanlegasta í þessu en ítreka að það er ekkert í frumvarpinu sem hér er til umræðu sem útilokar að kjararáð beiti sömu aðferðafræði og er í því frumvarpi sem hv. þingmaður vitnaði til.