136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[17:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það voru út af fyrir sig ágæt og athyglisverð sjónarmið sem fram komu hjá hv. þingmanni. Það er hins vegar eitt sem ég vildi koma að í þessu sambandi þar sem hv. þingmaður spurði hvort þessu frumvarpi væri ekki ætlað að vera fordæmi. Því er ætlað að vera það, það kemur fram í bréfi forsætisráðherra til kjararáðs þar sem hann segir í seinustu setningunni, með leyfi forseta:

„Er rétt að taka fram að ríkisstjórnin áformar að hefja viðræður við hálaunahópa hjá ríkinu um svipaðar tímabundnar lækkanir.“

Það liggur því fyrir frá upphafi. Málið á að hluta til rætur í því að því er ætlað að vera fordæmi til að þetta gangi yfir fleiri hópa sem starfa hjá ríkinu og hjá tengdum stofnunum og fyrirtækjum.

Ég fór reyndar aðeins yfir þetta í fyrirspurnatíma í dag að gefnu tilefni og það helgast auðvitað að stórum hluta til af þeim breytingum sem orðið hafa á launakerfi þjóðfélagsins og það eru jafnvel breytingar sem við erum ekki búin að sjá fyrir endann á.