136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[18:41]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talaði um og kemur fram í nefndaráliti að nefndin telur mikilvægt við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu að haft sé samráð við allsherjarnefnd um skipun þess sem valinn verður til að gegna embætti hins sérstaka saksóknara.

Það liggur alveg ljóst fyrir að veitingarvaldið er í höndum ráðherra en á tímum sem þessum skiptir máli að hafið sé yfir allan vafa að leitað sé eftir saksóknara sem geti með heiðarlegum og hlutlægum hætti sinnt þeirri vinnu sem hér um ræðir með sem allra bestum hætti þannig að ekki sé dregið í efa að hann komi eðlilega að málinu.

Ég, eins og hv. þm. Atli Gíslason, skrifa undir nefndarálitið sem liggur fyrir en geri ákveðinn fyrirvara og tel að ekki hefði þurft að setja sérstök lög um sérstakan saksóknara og ég geri ákveðnar athugasemdir við ákvæði 4. gr. frumvarpsins um uppljóstrara. Ég tek undir þau sjónarmið og rök sem hv. þm. Atli Gíslason kom fram með í máli sínu áðan, og til að stytta mál mitt vísa ég til þeirra, en vil auk þess nefna nokkur atriði sem mér finnst máli skipta.

Í umsögn Viðskiptaráðs Íslands, sem nefndinni barst, kemur fram eftirfarandi, sem mér finnst vera mikilvægt grundvallaratriði sem hafa verður í huga þegar fjallað er um mál eins og þessi. Með leyfi forseta:

„Það er einmitt á tímum óvissu og reiði sem þörf er á því að grunnstoðir réttarríkisins standi sem traustastar. Það telst til grundvallarreglna réttarríkisins að löggjafinn veiti ekki við óvenjulegar aðstæður afslátt af þeim meginreglum sem samfélagið byggir á. Sjónarmið og hugmyndir sem búa að baki réttarríkinu þurfa því alltaf að vera í heiðri höfð, hvernig sem viðrar í þjóðfélaginu. Hvað það varðar skiptir einna helst að réttaröryggi borgaranna, alveg óháð starfi þeirra eða stöðu, sé ekki stefnt í voða.“

Það er þetta sem ég leyfi mér að vísa til og leggja áherslu á og það reynir mjög á löggjafann að gæta þess að fara ekki offari heldur treysta á grunnstoðir réttarríkisins og þau lýðræðislegu úrræði og stofnanir sem okkur eru tiltæk.

Ég hefði því talið heppilegra að fela þeim sem hafa með rannsókn á efnahagsbrotum að gera rannsóknina sem hér um ræðir og fjölga starfsmönnum hjá embættinu og veita því eðlilegan fjárstuðning til þess að það geti rækt starf sitt sem allra best. Þar er um ákveðna sérhæfingu að ræða sem nauðsynlegt er að efla og styrkja og ljóst að embætti héraðssaksóknara í fjárhagsbrotum hefur ekki fengið nægjanlega fyrirgreiðslu á undanförnum árum, því miður.

Niðurstaðan er sú að meiri hlutinn telur eðlilegt að fara þá leið að setja sérstakan saksóknara og þar með tel ég eðlilegt að vera með á því þar sem ég sé í sjálfu sér ekki neina sérstaka meinbugi á að þannig sé farið eða háttað málum. Þó hefði ég að vísu kosið skynsamlegri leiðina frekar, að styrkja stoðirnar sem þegar eru fyrir og þau embætti saksóknara sem um þessi mál eiga að fjalla. (Gripið fram í.) Nei, nei, það verður alltaf þannig.

Þar fyrir utan er ákvæðið sem ég gerði athugasemd við þegar frumvarpið var til 1. umr. en það er ákvæði 4. gr. frumvarpsins þar sem um er að ræða meiri háttar frávik frá ákvæðum laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, og lög nr. 88/2008. Ég hefði talið eðlilegra að setja ákvæði um uppljóstrara og það að horfið yrði frá saksókn í almenn lög. Í dag eru ákvæði í lögum um að fara megi niður úr ákvörðun um lágmarksrefsingu, sem um geti verið að ræða ef viðkomandi skýrir af sjálfsdáðum frá afbroti og/eða gerir grein fyrir því um hvað hafi verið að ræða. Það hefði getað komið til og í ýmsum tilvikum hafa þeir sem þannig hafa komið fram hlotið mun vægari dóma en aðrir. Þannig hefði það líka verið og mér finnst heppilegra að skipa málum með þeim hætti að þeir sem hafa brotið af sér að mati saksóknara fái á sig ákæru en dómstóllinn taki síðan ákvörðun um það og meti með hvaða hætti og hvort það leiði ekki til refsingar vegna upplýsinga sem þeir kunna að hafa gefið í málinu. Það hefði ég talið heppilegra.

Hér er um mjög vandmeðfarið mál að ræða og ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að hvergi á Norðurlöndum hafa verið settar ámóta reglur og þessi víðtæka heimild sem er nánast geðþóttaákvörðun saksóknara í samráði við ríkissaksóknara um að falla frá saksókn ef um hefur verið að ræða einhvers konar upplýsingar sem máli kunna að skipta. Þar er um mjög mikið álitaefni að ræða og ég tel, virðulegi forseti, að í framhaldi af lagafrumvarpinu og samþykkt þess sé mikilvægt að farið verði að huga að því að setja almennar reglur í þessu efni. Að mjög miklu leyti var komið til móts við sjónarmið sem upp komu í nefndinni varðandi nauðsyn á breytingum og þau sjónarmið koma m.a. fram í nefndarálitinu.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að lengja mál mitt frekar þar sem sjónarmiðin sem lúta að fyrirvara mínum við nefndarálitið, sem hér liggur fyrir, eru komin fram en að öðru leyti er ég sammála því sem fram kemur í umræddu nefndaráliti.