136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[18:58]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um embætti sérstaks saksóknara vegna hruns bankanna og þess sem að því lýtur. Það er litlu við það að bæta sem sagt hefur verið. Það er ánægjulegt að nokkur samstaða er um málið og þannig var það reyndar mjög fljótt. Strax og þessir atburðir gerðust kom krafa um það í samfélaginu að rannsaka þyrfti öll þessi mál og margir hafa komið með ábendingar um að ýmislegt saknæmt kunni að hafa gerst. Því hefur verið gripið til þess ráðs að koma með frumvarp til laga um sérstakan saksóknara. Ég held að það sé líka mjög jákvætt því að þá vita þeir sem hafa upplýsingar eða telja sig vita um hluti sem eru saknæmir eða ólöglegir og að einhverjir hafi verið að brjóta lög, af þessu sérstaka embætti sem fólk getur snúið sér til og komið með ábendingar og vísbendingar um að eitthvað grunsamlegt hafi verið á seyði hér og þar, hvort sem er í bönkum eða jafnvel alls konar fyrirtækjum sem hafa verið að höndla með bréf, peninga og alls konar eignir.

Þess vegna tel ég mjög gott að þetta frumvarp skuli vera komið fram. Sumir hafa spurt af hvers vegna það hafi ekki komið fram strax og svarið við því er að það hefur náttúrlega verið mikil vinna að undirbúa frumvarpið og hafa það eins vel úr garði gert og hægt er, því að þegar slíkt mál er lagt fram þarf það að vera þannig að það brjóti ekki á neinum grundvallarreglum réttarríkisins. Þó að hlutirnir virðist augljósir í hugum margra er það samt svo að fara þarf að öllum settum reglum lýðræðisins og öllum reglum sem lúta að mannréttindum og framkomu við þá sem kunna að vera sakborningar.

Ég fagna því, frú forseti, að frumvarpið er nú komið úr nefnd. Ég tók þátt í vinnu nefndarinnar og umræðu um það og það hefur verið heilmikill lærdómur. Margir komu á fund nefndarinnar og bentu á ýmislegt sem hefur verið tekið til athugunar og er í greinargerð og öðrum athugasemdum.