136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

íslensk málstefna.

198. mál
[19:33]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu á þskj. 248 um íslenska málstefnu. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu verði samþykktar sem opinber stefna í málum er varða íslenska tungu.

Alþingi lýsir yfir stuðningi við það meginmarkmið tillagna Íslenskrar málnefndar að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.“

Ég vil í upphafi máls míns fagna því sérstaklega að tillögur að íslenskri málstefnu skuli vera komnar fram og að færi gefist á að ræða málefni íslenskrar tungu hér á Alþingi af því tilefni. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er gerð grein fyrir aðdraganda þess að íslensk málstefna er lögð fram. Líkt og þar segir kveður 9. gr. laga um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um að Íslensk málnefnd skuli vera stjórnvöldum til ráðgjafar „um málefni íslenskrar tungu og gera tillögur til menntamálaráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu“. Þessi lög voru sett af Alþingi árið 2006 og því eru þær tillögur að íslenskri málstefnu sem hér eru kynntar hinar fyrstu sem gerðar eru eftir samþykkt laganna. Ég tel það við hæfi að fjallað sé um tillögurnar hér á Alþingi og að þingið álykti um hana, enda þótt ekki sé sérstaklega mælt fyrir um það í lögum. Ég hef áður ítrekað það í mínum ræðum hér að ég teldi mikilvægt að Alþingi gæfist tækifæri til að fjalla um íslenska málstefnu.

Tillögur Íslenskrar málnefndar voru kynntar í hátíðarsal Háskóla Íslands á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember sl. Það er rétt að rifja það upp að haustið 1995 ákvað ríkisstjórnin að tillögu þáverandi menntamálaráðherra að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, skyldi haldinn hátíðlegur sem dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur menntamálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar okkar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.

Okkur þykir sjálfsagt núorðið að kenna daginn við tungumálið, og viðburðir í skólum, stofnunum og samtökum víðs vegar um landið minna okkur á mikilvægi tungunnar fyrir þjóðina alla, menningu hennar og sameiginlega vitund. Þessi sameign þjóðarinnar — tungan, menningin og vitundin — er afar dýrmæt. Við þurfum að standa vörð um og leggja rækt við þau verðmæti sem okkur hafa verið fengin.

Svo sem fram kemur í þingskjalinu eru þær tillögur að málstefnu sem hér eru kynntar afrakstur af starfi Íslenskrar málnefndar, og á málnefndin og allt það góða fólk sem lagt hefur hönd á plóg skilið bestu þakkir fyrir starf sitt. Málnefndin ákvað að skipa nokkra vinnuhópa til að undirbúa stefnumótun á einstökum sviðum sem málstefnan nær til og stóð fyrir fjölda málþinga þar sem rætt var um stöðu og horfur íslenskrar tungu, og kallaði eftir sjónarmiðum og ábendingum um stefnumið og áherslur.

Í stefnuskrá Íslenskrar málnefndar segir, með leyfi forseta:

„Á tímum hraðvaxandi alþjóðasamskipta þar sem notkun erlendra tungumála, einkum ensku, verður æ ríkari þáttur í íslensku samfélagi er brýnt að tryggja stöðu íslenskrar tungu. Eitt af mikilvægustu verkefnum Íslenskrar málnefndar er að vinna markvisst að því að íslenska haldi gildi sínu í þessu breytta umhverfi og verði áfram nothæf og notuð á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.“

Frú forseti. Einhverjir kunna að spyrja hvers vegna þurfti að semja málstefnu fyrir íslensku ef staða tungunnar er sterk að flestu leyti. Því er til að svara að mikilvægt þótti að kanna hver staðan væri í raun og veru. Í því skyni valdi Íslensk málnefnd til umfjöllunar þau svið sem hún taldi mikilvægast að beina sjónum að. Hún kannaði stöðu tungunnar á hverju þessara sviða, hverjar horfurnar væru ef ekkert yrði að gert, skilgreindi markmið og benti á úrræði sem nota mætti til að ná settum markmiðum. Þetta eru einmitt þau atriði sem mikilvægast er að huga að þegar málstefna er sett á blað. Við höfum hingað til ekki átt neina samþykkta málstefnu og stöndum þar verr en Norðurlandaþjóðirnar sem við miðum okkur helst við. Þær þjóðir hafa sett sér málstefnu og telja afar brýnt að tryggja stöðu þjóðtungna sinna þar sem enskan sækir að á flestum sviðum. Þótt margt gott hafi verið skrifað um verndun íslenskrar tungu er okkur hollt að huga að þeim áhrifavöldum samtímans sem helst grafa undan tungum fámennari þjóða og gæta þess að við missum hvergi svið yfir til annars máls.

Það er ástæða til að staðnæmast við meginmarkmið málstefnunnar, að íslenskan verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Ég tel að þetta sé viðeigandi markmið, nú þegar merki eru um að notkun íslensks máls á mikilvægum sviðum þjóðlífsins sé ógnað. Víða erlendis hafa þjóðir, smærri jafnt sem stærri, áhyggjur af því sem kallað hefur verið annars vegar umdæmisvandi og hins vegar umdæmismissir. Með umdæmisvanda er átt við þá stöðu sem ákveðið svið þjóðlífsins getur lent í ef tungumálið er ekki talið nýtast til allra samskipta, en með umdæmismissi er átt við það að heilt svið tekur upp erlent tungumál í öllum sínum samskiptum, innan lands sem utan. Það er t.d. umdæmisvandi ef kennsla á háskólastigi fer fram á blöndu af íslensku og ensku af því að íslensk orð vantar á kennslusviðinu og því hefur ekki verið sinnt að búa þau til. Það er aftur umdæmismissir ef heilt námskeið fyrir íslenska stúdenta með íslenskan kennara er síðan kennt á ensku. Það er einnig umdæmismissir ef íslenska er ekki gjaldgeng í samskiptum innan íslenskra fyrirtækja. Það er auðvelt að missa umdæmi í hugsunarleysi en það er afar erfitt að vinna það aftur, það kostar bæði tíma og fyrirhöfn og óvíst er um árangurinn.

Ég ætla ekki hér og nú að reyna að gera grein fyrir efnisatriðum og þeirri umfjöllun sem málstefnan geymir, heldur vísa til þess sem í henni kemur fram. Málstefnan er víðfeðm, tekur til alls 11 sviða, og hverjum kafla fylgja tillögur um tiltekin úrræði og aðgerðir.

Ég tel að sérstaklega mikilvægt að huga að hlutverki foreldra og skólakerfinu og fagna því að í tillögum málnefndarinnar er að finna vandaða umfjöllun um skólakerfið og málefni íslenskrar tungu. Lengi býr að fyrstu gerð. Í málstefnutillögunum er á fleiri en einum stað vikið að mikilvægi foreldra sem fyrstu leiðbeinenda barna í meðferð tungumálsins og fyrirmynda þeirra að góðu og vönduðu máli. Flestir foreldrar leggja sig að sjálfsögðu fram við að leiðbeina börnum sínum með því að tala við þau strax frá fæðingu og lesa fyrir þau á meðan þau eru ekki fær um að lesa sjálf. En ábyrgð foreldra lýkur ekki við upphaf skólagöngu. Mikilvægi góðra málfyrirmynda tekur aldrei enda. Því er brýnt, eins og bent er á í málstefnutillögunum, að gott samstarf sé milli skóla og foreldra um mikilvægi tungumálsins fyrir góða og vandaða menntun.

Skólakerfið allt — leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar og ekki síst háskólar — ber mikla ábyrgð og þar verður að veita markvissa og jákvæða þjálfun í notkun íslensku. Að henni býr allt þjóðfélagið. Í menntamálaráðuneytinu er hafinn undirbúningur að því að fylgja málstefnunni eftir á öllum skólastigum. Þar tel ég ekki síst mikilvægt að huga vel að tölvunotkun og öllu því sem henni fylgir. Tölvur eru til á flestum heimilum, þær eru notaðar í skólum, allt frá yngstu aldurshópum og til loka háskólaprófs, þær eru á öllum vinnustöðum og eru í vaxandi mæli teknar með hvert sem fólk fer. Fram til þessa hefur notendahugbúnaður að mestu verið á ensku en nú er þess ekki lengur þörf. Til hefur verið þýðing í nokkur ár á stýrikerfi og notendahugbúnaði Microsofts án endurgjalds fyrir eigendur kerfanna en hún hefur ekki fengið þá útbreiðslu sem hefði mátt vænta. Menntamálaráðuneytið mun hvetja til að allur almennur notendahugbúnaður í íslensku skólakerfi, frá leikskólum til háskóla, verði á íslensku í nánustu framtíð. Ekki gefa eftir á því sviði.

Nú gætu einhverjir hugsað sem svo að tillögur Íslenskrar málnefndar séu tóm gagnrýni á öll þau svið sem tekin eru til umfjöllunar. Svo er alls ekki. Þar er ekki verið að ræða boð og bönn eins og einhverjir kynnu að álíta. Dregið er fram það sem jákvætt er á hverju sviði, þegar ástandinu er lýst, en einnig er bent á hvar skórinn kreppir að og gera mætti betur.

Margt er hægt að gera til að efla áhuga á tungumálinu sem lifandi tæki sem móta má á margvíslegan hátt. Nýlega stóð t.d. Íslensk málnefnd fyrir ljóðasamkeppni barna í efri bekkjum grunnskóla sem lauk með verðlaunaafhendingu á hátíð sem haldin var í minningu Steins Steinarrs á aldarafmæli hans. Þátttaka fór fram úr öllum vonum eins og reyndin hefur einnig verið í fernuflugi Mjólkursamsölunnar. Þetta eru dæmi um góð samvinnuverkefni barna, foreldra og skóla og oft einhvers samstarfsaðila. Börnin okkar þurfa ef til vill dálitla hvatningu heima fyrir eða í skólanum til að setjast niður og skrifa, en hugarfluginu eiga þau yfir að ráða flest hver sjálf þegar þau eru síðan komin af stað. Nýyrðasamkeppni barna í 5.–7. bekk fór af stað á degi íslenskrar tungu og henni lýkur 17. júní. Samkeppni sem þessari er ætlað að sýna börnum, en um leið foreldrum þeirra og fjölskyldu, að gaman getur verið að reyna sig við að búa til íslensk orð í stað þess að taka umhugsunarlaust við þeim erlendu. Ef vel tekst til er e.t.v. hægt að koma af stað hugarfarsbreytingu hjá fyrirtækjum og auglýsendum þannig að þeim verði ljóst að ekki er nauðsyn að grípa til ensku til að ná eyrum og augum viðskiptavinanna.

Herra forseti. Menntamálaráðuneytið mun hafa forgöngu um að kynna málstefnuna og stuðla að umræðu um málefni íslenskrar tungu. Mikilvægt er að almenn samstaða skapist um málstefnuna, markmið hennar og leiðir að þeim. Víðtækur stuðningur allra þeirra sviða sem rætt er um í málstefnunni er forsenda þess að unnt sé að hrinda henni í framkvæmd og vinna markvisst á jákvæðan hátt að því að markmiðum hennar verði náð. Það þrengir að nú um stundir í efnahagslegu tilliti. Á slíkum tímum er gott að hugsa til þess sem við eigum sameiginlega og þurfum að hlúa að eftir bestu getu. Í málstefnunni er margt lagt til í hverjum kafla íslenskri tungu til heiðurs og stuðnings. Í lokaorðunum er bent á að sumt af því kostar ekki mikið fé, margt þurfi aðeins hvatningu en annað kalli á viðhorfsbreytingar. Sumt kostar litla sem enga vinnu, annað meiri, sum markmiðin er unnt að takast á við nú þegar, önnur eru langtímamarkmið sem þarfnast aukinna fjárveitinga. Öll markmið málstefnunnar, stór og smá, eru mikilvæg til þess að þjóðin muni um ókomin ár geta haldið fast í það sem er sameign allra Íslendinga — íslenskt mál sem enginn getur tekið frá þeim.

Hinu háa Alþingi gefst nú færi á að ræða efni tillögunnar og þær áherslur sem í henni koma fram. Ekki er vafi á að það gefur íslenskri málstefnu styrkari stoð að um hana sé fjallað á Alþingi.