136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

íslensk málstefna.

198. mál
[20:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér mikið í þessa umræðu en vil þó bregðast við ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur og taka undir orð hennar um mikilvægi íslensku í skólakerfinu. Hv. þingmaður tók ágæt dæmi, sem reyndar geta verið ágæt íslenska ef sérstaklega er hugað að setningafræðinni. Ég tel að einum þætti íslenskunnar sé ekki gert nógu hátt undir höfði í kennslu á efri skólastigum, t.d. í framhaldsskólanum, en það er sjálfri málfræðinni. Vissulega er mikið lagt upp úr íslenskukennslu í framhaldsskólunum. Mikil áhersla er lögð á bókmenntir sem eru mikilvægar til að öðlast góðan skilning á hagnýtri notkun tungumálsins. Eftir sem áður held ég að gera þurfi meira af því að kenna málfræðina sjálfa, þ.e. uppbyggingu tungumálsins, notkun þess, beygingarfræði, setningafræði og merkingarfræði. Ég tel að gera þurfi betur en nú er gert í þeim efnum og miða ég þá við það kennsluefni sem ég hef þekkt í skólakerfinu, bæði frá því að ég var sjálfur á þessu skólastigi og eins í gegnum börnin mín.

Úr því að ég er kominn í ræðustólinn vil ég leggja áherslu á umfjöllunina um þýðingar. Það er afskaplega mikilvægt fyrir okkur að leggja rækt við hvers konar þýðingar, bæði af íslensku yfir á önnur mál, eins og hér er fjallað um, en ekki síður af öðrum málum en íslensku. Hlúa þarf vel að öllu starfi á því sviði.