136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, o.fl.

124. mál
[20:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Eftir fall bankanna og kreppuna miklu hefur mikil gerjun verið í landinu, mikil umræða, og ég bind satt að segja töluverðar vonir við þá umræðu. Því miður sýnist mér örla á ofbeldi en ég vona þó, frú forseti, að það skemmi ekki þá gerjun og þá umræðu sem er í gangi þannig að hún geti orðið til heilla fyrir þjóðina og leitt til mikilla breytinga sem ég held að flestir séu sammála um að þurfi að verða.

Eitt af því er gagnsæi, gagnsæi í launum t.d., gagnsæi í lífeyrisréttindum o.s.frv. Það er ótrúlegur frumskógur á því sviði. Ef maður spyr einhvern að því hvað hann hafi í laun liggur við að maður sé engu nær þó að hann svari vegna þess að greiddar eru alls konar sporslur til hliðar við hin venjulegu laun. Maður verður eiginlega engu nær þó að viðkomandi segist hafa einhver laun, það þarf að þráspyrja: Færðu greitt fyrir eitthvað fleira? Það er mætingarbónus, það er óhreinindaálag o.s.frv., þetta er endalaust. Þetta þarf allt saman að skýra og ég vona að það verði gert þannig að menn sjái rétt laun.

Ég vil nefna það að hjá þingmönnum er til eitthvað sem heitir starfskostnaður sem var á sínum tíma sett á og er hvorki kostnaður né tekjur. Ef menn nota það ekki fá þeir það sem tekjur og ef menn nota það þá er það kostnaður. Ég hef alltaf hafnað þessum starfskostnaði og ég veit að fleiri hafa gert það vegna þess að ég gat hvorki flokkað þetta undir tekjur né gjöld í bókhaldi mínu.

Lífeyrismál þjóðarinnar eru með ótrúlegum eindæmum hjá ekki stærri þjóð. Við erum með hina almennu lífeyrissjóði verkalýðshreyfingarinnar sem settir voru á laggirnar 1969 upp úr kjarasamningum og greiða verðtryggðan lífeyri miðað við vísitölu neysluverðs og réttindaávinnslu sem er um 1,4% á ári. Til þess þarf um 12% iðgjald, 8% frá atvinnurekanda og 4% frá launþega. Þetta eru hinir svokölluðu almennu lífeyrissjóðir og í þeim eru um það bil 75–80% af öllum vinnandi Íslendingum.

Svo erum við með lífeyrissjóð opinberra starfsmanna og hann skiptist í tvær deildir. Það er í fyrsta lagi A-deild sem var búin til fyrir tíu árum eða svo, og í hann er greitt 15% iðgjald. Hann veitir 1,9% fyrir hvert ár sem menn hafa starfað en er að öðru leyti sambærilegur en með verðtryggingu miðað við neysluvísitölu, þ.e. lífeyririnn, o.s.frv.

Svo erum við með B-deildina sem er svokallaður eftirmannssjóður sem byggist á því að launin fara eftir launum eftirmanns. Þar erum við að tala um töluvert mikla oftryggingu miðað við hina tvo. Segja má að A-deildin sé töluvert mikið verðmeiri en almennu lífeyrissjóðirnir en B-deildin er öllu verðmest.

Það sem skilur þessar þrjár tegundir af lífeyriskerfum að er það að hjá opinberum starfsmönnum eru réttindin föst en iðgjaldið breytilegt, þ.e. iðgjald ríkisins, þ.e. iðgjald skattgreiðandans. Ef ávöxtun sjóðanna fer af einhverjum ástæðum forgörðum, t.d. við tap bankanna, tap sjóðsins á bankahruninu, hækkar iðgjaldið, þ.e. skattar skattgreiðenda, en réttindin skerðast ekki.

Því er öndvert farið hjá almennu sjóðunum. Þar skulu réttindin skert því það er ekkert sem stendur á bak við þá sjóði nema eignin. Ef hún rýrnar þarf að skerða réttindin því menn virðast ekki tilbúnir til að hækka iðgjaldið. Þó gæti það nú verið en það þarf að semja um það. Það yrði þá bara skattur á viðkomandi sjóðfélaga sem yrði að greiða viðkomandi stétt en ekki eins og hjá opinberu starfsmönnunum þar sem skattur er á annað fólk í þjóðfélaginu, opinbera starfsmenn að sjálfsögðu líka.

Þetta er staðan sem við stöndum frammi fyrir og þau frumvörp sem komið hafa fram undanfarna tvo til þrjá vetur eftir að þessi frægu eftirlaunalög voru samþykkt á Alþingi sem í reynd, frú forseti, skertu réttindi hins almenna þingmanns. Það er svo merkilegt. Að meðaltali tapaði hinn almenni þingmaður á því vegna þess að iðgjaldið var hækkað úr 4% í 5% og réttindin bætt eilítið en ekki sem því svarar. Þar var aðallega um að ræða réttindabætur fyrir ráðherra og aðra.

Þau tvö frumvörp sem við höfum verið að ræða hér, m.a. fyrirliggjandi frumvarp frá Vinstri grænum, fara úr einu forréttindakerfi yfir í annað, þ.e. að réttindin séu föst og töluvert betri en hjá almennu sjóðunum, 1,9% fyrir hvert ár en hjá almennu sjóðunum er það 1,4–1,5%. Það þýðir að í rauninni er verið að fara úr einu forréttindakerfi yfir í annað.

Það sama má segja um þær hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur á boðstólum og eins það frumvarp sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir flutti á sínum tíma. Það var sama sagan. Farið var úr einu forréttindakerfi yfir í annað. Fyrir langalöngu, árið 1996 held ég það hafi verið, flutti ég frumvarp um að þingmenn greiddu í almenna lífeyrissjóði eins og 80% af þjóðinni gera. Það finnst mér vera réttlátast því að þá njóta þeir sömu kjara og umbjóðendur sínir, það fólk sem kaus þá á þing, og skynja strax á eigin skinni hvernig það er að vera skertur ef til þess kæmi. Það finnst mér vera mjög mikilvægt.

Ég mun berjast fyrir því að gerðar verði breytingar á frumvarpi ríkisstjórnarinnar, ef það kemur fram, sem heimila þingmönnum að ganga í almenna lífeyrissjóði og þá gegn því að laun þeirra hækki sem nemi verðmæti réttindanna, því að allir eru einmitt að tala um þessi verðmæti réttindanna sem hvergi koma fram. Það er eiginlega vandinn.

Í nútímaþjóðfélagi, þar sem er krafa um meira gagnsæi og meiri hreinleika o.s.frv., finnst mér mjög mikilvægt að ekki sé verið að fela laun með lífeyrisréttindum. Það veit enginn hvers virði þessi réttindi í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins í B-deildinni eru í rauninni. Hvað þyrfti iðgjaldið að vera hátt? Menn vita bara að það er sennilega búið að kosta ríkissjóð 170 milljarða. Skuldbindingin hefur vaxið um 170 milljarða frá því að aðlögunarsamningurinn var gerður 1998, að mig minnir. Það hefur hann kostað hinn almenna skattgreiðanda því að það er náttúrlega hann sem greiðir þetta allt saman.

Mér finnst, frú forseti, að þingmenn ættu að stíga skrefið til fulls og taka upp almenn réttindi kjósenda sinna. Þá eru þeir eins settir og kjósendurnir og finna strax á eigin skinni ef skerða þarf réttindin eða eitthvað slíkt.