136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, o.fl.

124. mál
[20:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir að enginn þingmaður hafi tapað á þessu því að hann geti valið en hann gat ekki valið um iðgjaldið, það var hækkað upp í 5% úr 4%. Mjög margir þingmenn hafa tapað, þó að þeir geti valið um réttindin hækkaði iðgjaldið. Svo segir hv. þingmaður að B-deildin hafi ekki verið sú byrði sem hann átti von á. Heldur betur, ég hef reyndar ekki skoðað það nýverið en síðast þegar ég skoðaði það voru það 170 milljarðar sem skuldbindingin hafði vaxið eftir að aðlögunarsamningarnir voru gerðir. Þá lagði ég nefnilega til að opinberir starfsmenn gætu valið að hafa góð lífeyrisréttindi og lág laun eða lakari lífeyrisréttindi, almenn lífeyrisréttindi, og hærri laun. Það er einmitt það sem ég ætla að leggja til og gera að tillögu minni, að þingmenn geti valið um það að vera með annaðhvort forréttindalífeyri hv. þingmanns, það sem ríkisstjórnin leggur til, eða valið um það að vera í Lífeyrissjóði verslunarmanna eða öðrum almennum lífeyrissjóði og fá þá hærri laun, sem réttindunum nemur.

Að ég hafi greitt atkvæði með þessu frumvarpi, það gerði ég af þeirri einföldu ástæðu að þar áður var réttindauppbyggingin mjög ógreinileg og ógagnsæ. Með lögunum sem sett voru 2003 var það þó samræmt og það var auðveldara en áður að breyta úr því kerfi yfir í almennt kerfi. Þess vegna greiddi ég þessu atkvæði. En ég var ekkert yfir mig hrifinn af frumvarpinu á sínum tíma. Ég hefði helst viljað að þingmenn, eins og ég lagði sjálfur til árið 1996 eða 1997, nytu bara almennra lífeyrisréttinda eins og meginhluti kjósenda þeirra.