136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér leikur hugur á að vita um nokkur atriði sem snúa að tilhögun fundarhalda og skipulagningu starfa þingsins á næstunni. Ég vil í fyrsta lagi spyrja hvort rétt sé að hér hafi staðið formlegir þingfundir í gær á milli 5–5.30 og til 7 en á sama tíma hafi þingflokkar stjórnarflokkanna verið á formlegum þingflokksfundum að fjalla um drög að nýju fjárlagafrumvarpi. Hér var haldið fram þingfundi með ákaflega lítilli viðveru stjórnarliða af eðlilegum ástæðum. Er ætlunin sú að við sjáum jafnvel meira af slíkri nýbreytni, að formlegir þingflokksfundir standi á sama tíma og þingfundur?

Í öðru lagi vil ég spyrja um stöðu fjárlagafrumvarpsins hins nýja, þ.e. niðurskurðar- og harðindafrumvarps ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem enn er ekki komið til fjárlaganefndar og samkvæmt mínum upplýsingum er það jafnvel ekki væntanlegt þangað fyrr en á morgun. Engu að síður flýgur það fyrir á göngum að það standi jafnvel til að ræða það á föstudaginn.

Þá er spurningin sú — og væri gaman að hafa hér hinn glæsta formann fjárlaganefndar sem fór mikinn á upphafsári sínu á þingi um það hvernig hann ætlaði að betrumbæta vinnubrögð og vanda þau öll — hvort það sé þá virkilega meiningin að fjárlaganefnd Alþingis fjalli um hið nýja fjárlagafrumvarp. Það er þá nýtt fjárlagafrumvarp á einum sólarhring. Svo eigi þingið að ræða það strax daginn eftir og taka það jafnvel fyrir með afbrigðum. Auðvitað trúi ég því ekki, herra forseti. Það hlýtur að vera einhver misskilningur en þetta er orðin útbreidd frétt á göngum þinghússins þannig að mér þætti vænt um að forseti bæri þetta til baka. Það stendur tæplega til að fara að bjóða upp á slík vinnubrögð ofan í allt sem á undan er gengið. Þess vegna spyr ég að lokum virðulegan forseta hver sé áætlunin núna um störf þingsins því að ljóst er að starfsáætlun Alþingis er jafnónýt og fjárlagafrumvarpið frá því í haust og hlýtur að þurfa að endurskoðast. Af hverju er ekki sett upp ný starfsáætlun sem raðar þessu niður á dagana fram að jólum og jafnvel milli jóla og nýárs (Forseti hringir.) ef með þarf?