136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Ég vil láta það koma fram að maður gerir auðvitað ekki athugasemdir við að þingflokksfundir standi sem maður veit ekki um að verið er að halda. Ég hafði ekki hugmynd um það fyrr en ég frétti í morgun að það hefði verið skýringin á fátæklegri viðveru stjórnarliða og ráðherra undir umræðum í gær á aukafundi sem boðaður var með mjög skömmum fyrirvara með sjö nýjum þingmálum sem, ef ég man rétt, voru öll nema kannski eitt tekin á dagskrá með afbrigðum. Þingmenn höfðu vægast sagt lítinn tíma til að bregðast við þeirri nýju dagskrá og setja sig inn í þau mál og ræða þau hér. Þeir gerðu það engu að síður og sýndu þar með mikið umburðarlyndi gagnvart því ástandi sem hér ríkir.

Að sjálfsögðu hefur starfsáætlun Alþingis raskast og það er enginn að kvarta undan því, það er veruleiki sem við stöndum frammi fyrir. En eftir stendur að mikilvægt er að reyna að skipuleggja þinghaldið hér þannig að menn hafi einhvern lágmarksundirbúningstíma og þegar stórmál eins og fjárlagafrumvarp sem er í grunninn nýtt, sameiginleg afurð ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, á að koma á dagskrá. Ef fjárlaganefnd fær ekki nema einhverja klukkutíma eða sólarhringa til að fjalla um það liggur það í hlutarins eðli að þingflokkar og þingmenn hafa ákaflega lítinn tíma til að bregðast við slíku og undirbúa sig undir umræðuna. Það gengur auðvitað ekki að hún sé sett á dagskrá með einhverra örfárra klukkutíma fyrirvara eða þótt það væri með einhverra daga fyrirvara, hvað þá ef málið er tekið á dagskrá með afbrigðum. Ég gef mér því það að forseti hafi verið að boða að fjárlagafrumvarpið verði ekki á dagskrá og það verði ekki rætt fyrr en í næstu viku og er það vel. Þá gefst meiri tími til að undirbúa sig undir það.

Ég hvet til þess sett verði upp ný starfsáætlun a.m.k. fram að jólum ef sá tími dugar, ellegar þá fram að áramótum þannig að þingmenn viti eitthvað að hverju þeir ganga. Samkvæmt gildandi starfsáætlun er fundur á föstudaginn og gerir að sjálfsögðu enginn athugasemdir við það. Það er örugglega nóg að starfa annað en að ræða fjárlagafrumvarpið á þeim degi en mikilvægt er að menn hafi þó jafnan fyrir fram sig einhverja áætlun um næstu sólarhringa þannig að þeir viti að hverju þeir ganga.