136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eiga orðastað við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson sem er bæði formaður viðskiptanefndar Alþingis og varaformaður Samfylkingarinnar. Hv. þm. Árni Páll Árnason bað sérstaklega um að Davíð Oddsson seðlabankastjóri væri kallaður fyrir viðskiptanefnd til að upplýsa um það sem seðlabankastjóri segist vita varðandi af hverju hryðjuverkalöggjöfinni svokölluðu var beitt á Ísland. Seðlabankastjóri mætti til fundar en þar neitaði hann að svara þegar á hólminn var komið og bar fyrir sig bankaleynd. Hann kom því síðan sérstaklega að að hann hefði varað ríkisstjórnina við því í sumar að það væru 0% líkur á því að bankarnir mundu lifa af stöðuna á fjármálamarkaðnum.

Varðandi þessi mál hefur hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde upplýst í sjónvarpsviðtali — og ég vitna beint:

„Já, já. Það var fundur í júlí og ég kannast ekki við að það hafi verið talað um 0% líkur. Það má vel vera að það hafi verið sagt einhvern tíma í símtali en slík óformleg samtöl eru ekki hin opinbera afstaða bankans.“

Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra en Davíð Oddsson seðlabankastjóri kýs samt að koma þessu sérstaklega að hjá viðskiptanefnd þingsins. Síðan sagði hæstv. forsætisráðherra í gær að hann kannaðist ekki við að það hafi verið sagt við sig í samtali að 0% líkur væru á hruni bankanna. Þetta er allt með miklum ólíkindum, virðulegi forseti.

Ég vil spyrja hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson sem segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með frammistöðu seðlabankastjóra á fundi nefndarinnar: Hvað ætlar Samfylkingin að gera í þessari stöðu? Eigum við að horfa upp á það að forustumenn þjóðarinnar í lykilstöðum varðandi bankahrunið geti talað með þessum hætti fyrir framan alþjóð? (Forseti hringir.) Eigum við að afbera það?