136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Viðskiptanefnd Alþingis hefur haldið 25 fundi síðan bankahrunið varð. Við höfum kallað eftir margs konar upplýsingum og reynt að varpa ljósi á hin ýmsu mál. Má þar nefna uppgjöf peningamarkaðssjóða, samskipti einstakra stjórnvalda, ákvarðanir skilanefnda, hugsanlegar lánveitingar ríkisbankanna sem gætu haft neikvæð áhrif á fjölmiðlamarkaðinn o.s.frv.

Við höfum líka kallað eftir skýringum frá seðlabankastjóra um ýmis mál. Það er rétt að fram kom á fundi nefndarinnar og seðlabankastjóra að seðlabankastjóri segist hafa sagt ráðherrum í júní — hann tekur ekki fram hvaða ráðherrum — að það væru 0% líkur á því að bankarnir mundu lifa. En nú hefur hins vegar komið fram að hvorki utanríkisráðherra né viðskiptaráðherra áttu fund með seðlabankastjóra í júní og þeir kannast ekki við þessi orð. Forsætisráðherra virðist heldur ekki ráma í þessi orð. Auðvitað eiga engar hálfkveðnar vísur að vera í þessu máli og þarf seðlabankastjóri að skýra þessi orð mun betur á hinum opinbera vettvangi. Auðvitað á seðlabankastjóri líka að upplýsa um hvað hann telur hafa valdið því að Bretar settu á okkur hryðjuverkalög. Hann segist búa yfir þeim upplýsingum en hann neitar að gefa þær upp. Auðvitað veldur það mér miklum vonbrigðum. Ég hvet hv. seðlabankastjóra að gera hreint fyrir sínum dyrum. Þetta er ekki einkamál hans, þetta lýtur að hagsmunum þjóðarinnar. Komið hefur fram að stjórnvöld eru að hugsa um að skoða réttarstöðu sína gagnvart Bretum og þessar upplýsingar þurfa að koma upp á yfirborðið. Við í viðskiptanefnd gerðum tilraun til að fá þessar upplýsingar en fengum þær ekki.

Að lokum vil ég vekja athygli á því að seðlabankastjóri sagði á fundi sínum með viðskiptanefnd að viss samtöl í Seðlabankanum væru tekin upp. Á þessum fundi tilkynnti seðlabankastjórinn sérstaklega að hann hefði gert ráðstafanir til að geyma þessa upptöku lengur en í þá sex mánuði sem mun vera meginreglan þar á bæ varðandi geymslu þess háttar upplýsinga. Þetta tilkynnir seðlabankastjórinn nefndinni sérstaklega, væntanlega þá í þeim tilgangi að hægt verði að upplýsa málið enn betur síðar meir (Forseti hringir.) og því hlýt ég að fagna og kalla eftir.