136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér hefur verið rætt um samskipti Seðlabankans og seðlabankastjóra við ríkisstjórn og Alþingi og það er sífellt eitthvað sem kemur manni á óvart, manni dettur í hug að lengi skuli manninn reyna, þann mann.

Leiðari Fréttablaðsins fyrr í vikunni hefst á þessum orðum, með leyfi forseta:

„Viðvörunarbjöllurnar gullu með vaxandi þunga í aðdraganda bankahrunsins í haust. Þar voru hagfræðingar á ferð, bæði innlendir og erlendir, og einnig stjórnmálamenn og ýmsir aðrir sem gerðu sér grein fyrir því að íslenska fjármálaundrið væri ekki undur heldur nær því að vera tálsýn.“

Þetta eru orð að sönnu og það er hollt að rifja upp að eftir fund Seðlabankans í London í febrúar var því haldið fram að stjórnvöld hefðu sérstaklega verið vöruð við ástandinu. Eins og hér hefur komið fram lýsti formaður bankastjórnar Seðlabankans því yfir á fundi með viðskiptanefnd nýlega að hann hefði varað ráðherra í ríkisstjórninni við því í sumar — ég læt liggja á milli hluta hvort það var í júní, júlí eða ágúst eða hvenær það var — að 0% líkur væru á að bankarnir mundu lifa lánsfjárkreppuna af. Nú segja ráðherrar að þeir hafi ekki átt fundi eða hlýtt á þessi orð seðlabankastjóra og við hljótum að velta fyrir okkur hver segir satt og hver ósatt, orð standa gegn orði.

Mér er sagt að seðlabankastjóri hafi líka sagt á fundi viðskiptanefndar að hann hafi í september sagt ráðherrum að bankarnir yrðu hrundir innan þriggja vikna. Mér leikur forvitni á að vita hvort þetta er rétt. Hvað voru menn eiginlega að hugsa í Stjórnarráðinu? Voru þeir ekki með réttu ráði? Var ekki talið nauðsynlegt að bregðast við þessum aðstæðum?

Það er, virðulegur forseti, ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á þann skrípaleik sem samskipti Seðlabankans og ríkisvaldsins eru. Það hljóta allir að sjá að þessu verður að linna og á því bera bankastjórn Seðlabankans og ríkisstjórnin ábyrgð. Ég hlýt að spyrja: Er ekki kominn tími til að þessir aðilar axli ábyrgð (Forseti hringir.) í samræmi við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og í samræmi við lög um ráðherraábyrgð?