136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Á einum af fundum hv. viðskiptanefndar, í síðustu viku hygg ég að það hafi verið, kom fram að rannsókn á fortíðinni, þ.e. aftur til 1. september sl., væri hafin í bönkunum öllum þremur og sérstakt endurskoðunarfyrirtæki hefði verið fengið, þó annað en það sem hefði endurskoðað viðkomandi banka, til að vinna þá vinnu. Drög væru komin hjá Glitni — Heimir Haraldsson frá skilanefnd Glitnis upplýsti það — og frestur væri til 15. desember. Þetta væri sem sagt að klárast og það var upplýst að umrædd rannsókn færi fram hjá KPMG. Nú hefur eftir þennan fund komið fram að KPMG er að flestra mati fullkomlega vanhæft til að annast þessa athugun með því að fyrirtækið var aðalendurskoðandi ríflega 40% eigenda í Glitni, stærstu eigenda og kjölfestufjárfesta, þar með bæði Baugs og FL Group, nú Stoða.

Ég tel að þessi rannsókn sé þar með fullkomlega ónýt — að vísu ekki sú fyrsta í þessu máli en þessi rannsókn er a.m.k. ónýt — og langar því að spyrja hv. formann viðskiptanefndar hvort hann telji nægilegt og boðlegt að skilanefnd Glitnis fari yfir og sigti út einstök atriði úr þessari rannsókn til að fela öðrum að fara yfir. Það er það sem þetta vanhæfa fyrirtæki, KPMG, hefur farið fram á að gert verði.