136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tel það mjög alvarlegt ef við leyfum forustumönnum þjóðarinnar að tala í hálfkveðnum vísum eins og staðan er í samfélaginu. Er ég þar bæði að vísa til hæstv. forsætisráðherra sem segir í fjölmiðlaviðtali að vel megi vera að eitthvað slíkt hafi verið sagt einhvern tímann í símtali en slík óformleg samtöl væru ekki hin opinbera afstaða bankans — mér finnst alvarlegt að segja þetta og segja svo þinginu að hann kannist ekkert við svona samtöl. Mér finnst líka mjög alvarlegt að seðlabankastjóri skuli bæði segja að hann viti af hverju við vorum beitt hryðjuverkalöggjöfinni, hann eigi samtöl um það, og að hann hafi líka upplýst ríkisstjórnina um að 0% líkur væru á að bankarnir hefðu þetta af, og það hafi verið gert í sumar.

Síðan neitar seðlabankastjóri að tjá sig um hryðjuverkalöggjöfina og ber fyrir sig bankaleynd þegar hann kemur fyrir þingnefnd. Þetta eru hálfkveðnar vísur sem ekki er hægt að sætta sig við. Ég fagna því sérstaklega að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson er ósáttur við þetta og segir að seðlabankastjóri verði að upplýsa hvað hann eigi við í báðum þessum tilvikum, bæði varðandi hryðjuverkalöggjöfina og líka varðandi 0% líkurnar. Ég gef mér þá að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson muni beita sér fyrir því að viðskiptanefnd fái seðlabankastjóra aftur á sinn fund. Það er hægt að gera það á næsta reglulega fundi viðskiptanefndar. Við þær aðstæður sem uppi eru í samfélaginu má ekki fela upplýsingar, það verður að upplýsa þjóðina um hvað hefur átt sér stað.

Forustumenn mega ekki tala í hálfkveðnum vísum. Það er grafalvarlegt og ég (Forseti hringir.) vænti þess að varaformaður Samfylkingarinnar standi í stykkinu og kalli seðlabankastjóra aftur fyrir nefndina.