136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

fundur með fjármálaráðherra Breta.

130. mál
[14:07]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrstu spurningunni, um hvaða banka var rætt á fundi með fjármálaráðherra Breta 2. september, hef ég svarað áður. Þann 24. nóvember var dreift á Alþingi svari við skriflegri fyrirspurn sama þingmanns um sama fund, samanber þskj. 214, og þar kemur fram að á fundi ráðherranna var rætt um innstæðureikninga Landsbankans í Bretlandi. Ég skal lesa bara upp úr því skriflega svari ef þingmaðurinn er ekki með það, með leyfi forseta:

„Ráðherra fundaði 2. september sl. með Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands. Á fundinum ræddu ráðherrarnir almennt um aðstæður á mörkuðum og viðskipti landanna. Meginefni fundarins var um það að æskilegt væri að færa innstæðureikninga hjá útibúi Landsbankans í London í breskt dótturfélag. Bresk stjórnvöld höfðu unnið að því um nokkurt skeið ásamt íslenskum stjórnvöldum að fá Landsbankann til að flytja innstæður svokallaðra Icesave-reikninga úr útibúinu í breskt dótturfélag. Bresk stjórnvöld gerðu mjög stífar kröfur um flutning eigna Landsbankans til Bretlands og um tímamörk fyrir eignaflutninginn. Tilgangurinn með fundinum var að fara fram á að bresk stjórnvöld heimiluðu að innlánsreikningarnir yrðu fluttir í breskt dótturfélag strax, en að Landsbankanum yrði gefinn eðlilegur frestur til skipulegs flutnings á eignum á móti innstæðum þannig að fjármögnunarsamningar bankans röskuðust sem minnst.

[…]

Auk viðskiptaráðherra [eins og fram hefur komið og ég skal svara þingmanninum aftur] sóttu fundinn af Íslands hálfu sendiherra Íslands í Bretlandi, ráðuneytisstjórinn í viðskiptaráðuneytinu, ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu, formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu og aðstoðarmaður viðskiptaráðherra.“ — Þessir sátu fundinn og eins og ég segi var meginefnið það að fá bresk stjórnvöld til að heimila flutninginn úr útibúi í dótturfélag þannig að innstæðureikningarnir féllu undir vernd breskra innstæðulaga.

Svar við spurningunni um hvað ráðherra eða aðrir í sendinefnd hefðu átt við þegar þeir fullyrtu við breska ráðherrann að Bretar þyrftu ekki að hafa áhyggjur er að ég kannast bara ekki við það að nokkur úr íslensku sendinefndinni hafi fullyrt að Bretar þyrftu ekki að hafa áhyggjur. Ég veit ekki til hvers hann vísar, enda var það mjög ónákvæmt.

Gaf ráðherra til kynna að aðkoma íslenskra stjórnvalda að bankamálum væri umfangsmeiri en hann gat fullyrt vegna umboðsins? Svarið við því er afdráttarlaust nei.

Gaf ráðherra eða einhver í sendinefndinni loforð eða viljayfirlýsingu án samráðs eða vitundar fjármálaráðherra? Nei, að sjálfsögðu ekki enda var ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins á fundinum og það var gagngert til þess að ráðuneytin hefðu eðlilegt upplýsingaflæði sín á milli í svona stóru máli sem skarast milli ráðuneytanna eins og gerist. Þarna er þetta í rauninni vistað í breska fjármálaráðuneytinu þar sem t.d. breska fjármálaeftirlitið er deild í breska fjármálaráðuneytinu. Það er allt annað fyrirkomulag en hér þar sem Fjármálaeftirlitið er sjálfstætt o.s.frv. Þetta er hvert með sínum hætti í þessum löndum þar sem bankarnir hafa starfrækt bæði útibú og dótturfélög. Svona er þessu háttað í Bretlandi. Við óskuðum eftir þessum fundi til að þrýsta á um að þetta mikilvæga mál gengi eftir. Það eitt var fundarefnið eins og margoft hefur komið fram og sérstaklega í skriflega svarinu sem ég vísaði í áðan.