136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

fundur með fjármálaráðherra Breta.

130. mál
[14:13]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa kvatt sér hljóðs og fjallað um mikilvægi þess að það sé upplýst hvað raunverulega fór fram á þeim fundi sem hér er vísað til. Sérstaklega finnst mér athyglisvert þetta sem haft er eftir formanni bankastjórnar Seðlabankans á fundi viðskiptanefndar, m.a. að ekki væri til fundargerð. Ég trúi því varla að það sé ekki til fundargerð af fundi sem þessum og vil inna hæstv. viðskiptaráðherra eftir því hvort það geti verið rétt. Er ekki til fundargerð af þessum fundi og er ekki eðlilegt að gerð sé grein fyrir henni og það sé eitthvað meira en bara talpunktar sem þarna eru á ferðinni?

Ég tel ákaflega þýðingarmikið, ekki síst fyrir trúverðugleika ráðherrans sjálfs, að þetta sé allt uppi á borði, að okkur sé ljóst hvað þarna fór fram. Það er augljóslega verið að gefa í skyn í þessu máli að eitthvað í málflutningi íslenskra stjórnvalda hafi gefið breskum stjórnvöldum tilefni til þess að beita hryðjuverkalöggjöfinni (Forseti hringir.) og það verður að fást á hreint hvort svo sé og menn verða þá að axla ábyrgð í samræmi við það.