136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

samráð við Fjármálaeftirlitið.

174. mál
[14:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi í 16. gr. segir að Fjármálaeftirlitið skuli gefa viðskiptaráðherra skýrslu um starfsemi sína fyrir 15. september ár hvert og í framhaldi af því geri ráðherra Alþingi grein fyrir starfseminni.

Í skýringum með frumvarpinu sem flutt var segir um þessa grein, með leyfi forseta:

„Ekki er gert ráð fyrir sérstakri samráðsnefnd Fjármálaeftirlits og viðskiptaráðuneytisins eins og nú starfar á grundvelli seðlabankalaga. Þess í stað er gert ráð fyrir að viðskiptaráðherra sé reglulega gerð grein fyrir starfseminni. Brýnt er að viðskiptaráðherra hafi yfirsýn yfir ástand fjármagnsmarkaðarins.“

Þannig er þessi lagagrein skýrð, virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að þar er tvisvar sinnum tilgreint sérstaklega að það skuli vera ráðherra sem á að fá upplýsingar um stöðuna á fjármálamarkaði, ekki ráðuneytið.

Þess vegna spyr ég í fyrsta lagi:

Hvernig er háttað því samráði milli ráðherra og Fjármálaeftirlitsins sem ráð er fyrir gert í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og ætlað er til þess að ráðherra hafi yfirsýn yfir ástand fjármálamarkaðarins á hverjum tíma?

Í öðru lagi vek ég athygli á því að fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Sigurður Einarsson, lét þau ummæli falla í Ríkisútvarpinu 8. nóvember sl. að íslenski bankamálaráðherrann hefði strax í mars átt að hafa þá vitneskju sem væri nægileg til þess að stöðva frekari innlánssöfnun á Icesave-reikningana.

Daginn eftir segir forstjóri Fjármálaeftirlitsins í viðtali við Ríkisútvarpið að viðskiptaráðherra hefði mátt vera ljóst hver staða Landsbankans vegna Icesave-reikninganna var í vor en segist þó ekki hafa rætt málið sérstaklega við ráðherrann.

Þess vegna spyr ég, virðulegi forseti, í 2. tölulið fyrirspurnarinnar:

Hvers vegna hafði forstjóri Fjármálaeftirlitsins ekki rætt stöðu Icesave-reikninganna við ráðherra, eins og fram kom í viðtali við hann í Ríkisútvarpinu 9. nóvember sl., og hvers vegna mátti ráðherra vera ljóst hver staða Landsbankans var í vor vegna Icesave-reikninganna?