136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

GSM-samband.

135. mál
[14:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Samkvæmt þeim hefur það ekki gengið upp, sem hæstv. samgönguráðherra hafði uppi áform um og eiginlega lofaði þjóðinni þann 31. júlí sl., að GSM-samband yrði komið á um allt land um næstu áramót.

Ég tók sérstaklega eftir þessum orðum vegna þess að mér fannst hæstv. ráðherra nokkuð djarfur þegar hann lét þau falla. Ég gerði mér grein fyrir því að þetta væri ekkert smáverkefni. En hæstv. ráðherra lætur sér þetta að kenningu verða og gætir sín kannski aðeins í orðavali þegar hann kemur með yfirlýsingar sínar í framtíðinni.

Vissulega hefur margt verið gert og ástandið er ekkert sambærilegt við það sem var fyrir örfáum árum enda voru mikil áform uppi um það að bæta þessa þjónustu við landsmenn þegar Síminn var seldur og stofnað var til Fjarskiptasjóðs.

Það er svo annað mál, sem ég reyndar spyr ekki um í þessari fyrirspurn en er náttúrlega mál málanna, og það er það hvernig gengur að koma á háhraðatengingum til landsmanna sem hefur verið mjög brösulegt og gengið illa, leyfi ég mér að segja, hvað varðar mörg svæði. Mikill ágreiningur hefur verið uppi um það hjá landsmönnum og óánægja gagnvart ráðuneytinu og gagnvart Fjarskiptasjóði — Fjarskiptasjóður hefur ekki viljað koma inn á mörg svæði þar sem einstaklingar hafa þurft að taka á sig allan þann kostnað sem er því samfara að tengjast netinu sem er nú orðið hluti af daglegu lífi Íslendinga, þ.e. að eiga aðgang að netinu.