136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

háhraðanetþjónusta.

164. mál
[14:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ber hér upp fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra, eins og komið hefur fram, varðandi háhraðanetþjónustu fyrir lögheimili með heilsársbúsetu og fyrirtæki með heilsársstarfsemi sem hvorki eiga kost á slíkri þjónustu né munu eiga kost á henni á markaðsforsendum og langar að fá að vita hvað líður framkvæmd við hana.

Ég óska eftir upplýsingum um hversu mörg heimili og fyrirtæki muni njóta góðs af þeirri framkvæmd og hvenær megi gera ráð fyrir að verkefninu verði lokið.

Hv. varaþingmaður Guðný Hrund Karlsdóttir spurði hæstv. ráðherra og fékk skriflegt svar frá honum varðandi háhraðanettengingarnar og verkefnið sem hér um ræðir 15. maí. Í svari hæstv. ráðherra og á heimasíðu Fjarskiptasjóðs kemur í ljós að útboðið, sem lýtur að háhraðanettengingu fyrir lögheimili með heilsársbúsetu og fyrirtæki með heilsársstarfsemi, nær til allra sveitarfélaga landsins og var auglýst þann 27. febrúar. Einnig kemur fram á heimasíðu Fjarskiptasjóðs að tilboðsfrestur hafi verið til 31. júlí í sumar.

Í tilkynningu á heimasíðu Fjarskiptasjóðs sem sett var inn á síðuna 18. júlí, þ.e. hálfum mánuði áður en tilboðstíma átti að ljúka, kemur fram að að höfðu samráði við Ríkiskaup, sem sér um framkvæmd útboðsins fyrir hönd sjóðsins, telji stjórn Fjarskiptasjóðs að lengja þurfi tilboðstímann um fimm vikur eða til 4. september. Það er sagt gert til að koma til móts við aðstæður margra bjóðenda þannig að fleiri sjái sér fært að taka þátt í útboðinu. Þar kemur einnig fram að stjórn Fjarskiptasjóðs telji það skipta höfuðmáli með tilliti til umfangs verkefnisins að endanlegur viðsemjandi hafi getað undirbúið tilboð sitt með viðunandi hætti. Þannig stuðli lengdur tilboðsfrestur að betri lausn og styttri verktíma og lægra tilboðsverði auk þess sem vel unnin tilboð stytti þann tíma sem yfirferð tilboða og samningsgerð krefjast. Sem sagt, tilboðsfresturinn er lengdur til að fá vandaðri tilboð og til að stytta verktímann. Stjórn sjóðsins leggur á það skýra áherslu við vinnuna að opnun tilboða og undirritun samninga verði flýtt eins og kostur er og stjórnin telur að áhrif lengingar tilboðsfrestsins til 4. september verði óveruleg.

Nú mun það hafa gerst, hæstv. forseti, eða mér hefur borist til eyrna að tilkynnt hafi verið um — reyndar kemur það ekki fram á heimasíðu Fjarskiptasjóðs — að tilboðstíminn hafi verið lengdur til 20. janúar. Það þýðir að tilboðið hefur þá staðið opið í tæpt ár. Þetta kemur mér mjög á óvart og ég hlakka til að heyra svör hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) við þessum spurningum sem brenna á mjög mörgum.