136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

nýtt framhaldsskólapróf og fræðsluskylda.

148. mál
[14:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þegar ný lög um skólastigin voru sett á síðasta þingi var miðað við eða gert ráð fyrir svokallaðri fræðsluskyldu til 18 ára aldurs og því tengt var sett á nýtt framhaldsskólapróf í nýjum lögum um framhaldsskóla.

Í lögunum er svo sagt, með leyfi forseta:

„Til að útskrifast með framhaldsskólapróf skal nemandi hafa lagt stund á nám sem svarar til 90–120 eininga samkvæmt námskrá og námsbrautarlýsingu sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra skv. 23. gr.“

Nú er unnið að útfærslu laganna í framhaldsskólum um land allt og greinilegt að ýmsar hugmyndir eru uppi um hvernig eigi að útfæra þetta framhaldsskólapróf. Meðal spurninga er hvort nemendum verði gert að ljúka prófi í 90–120 einingum eða hvort framhaldsskólapróf verði veitt nemendum sem leggja stund á nám í viðkomandi skólastofnun í eitt og hálft til tvö ár án þess þó endilega beinlínis að ljúka prófum eða þreyta próf í öllum þessum einingum.

Ég vil grennslast fyrir um stöðu þessarar vinnu, hvort þessi útfærsla liggur fyrir og hvort hæstv. menntamálaráðherra hefur eitthvert sérstakt viðhorf til þess hvernig eigi að skilgreina framhaldsskólaprófið. Enn fremur langar mig að kanna hvort þessu hefur þá fylgt umræða um reiknilíkanið sem framhaldsskólarnir fá úthlutað fjármunum samkvæmt og hvort ætlunin sé þá að skólarnir fái greitt fyrir nemendur upp að 18 ára aldri samkvæmt fræðsluskyldu óháð því hvort nemendur þreyta próf eða ekki, því hingað til hafa fjármunir og fjárveitingar miðast við að nemendur mæti í próf og einingafjöldinn sem þá er reiknaður miðast við það. En nú, þegar þessi hugmynd um fræðsluskyldu til 18 ára aldurs er uppi, velti ég fyrir mér hvort allir nemendur sem á annað borð eru skráðir í viðkomandi skólastofnun muni teljast virkir þegar fjármunum verður úthlutað.