136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

nýtt framhaldsskólapróf og fræðsluskylda.

148. mál
[15:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er ljóst að það er mikil deigla í þessum málum og mikil vinna sem stendur yfir en mig langar þó aðeins að grennslast nánar fyrir um nokkur atriði.

Í fyrsta lagi hvað varðar endurskoðun reiknilíkansins. Ég fagna því að taka á upp aukinn sveigjanleika í því hvernig þreyttar einingar eru metnar. Það væri áhugavert að vita nánar um það hvenær ráðherra sér fyrir sér að þeirri endurskoðun ljúki. Því miður hefur reiknilíkanið verið þeim annmörkum háð að skólar hafa t.d. kennt nemendum heila önn sem hafa síðan ekki mætt í próf og þar af leiðandi hefur ekki verið greitt fyrir þá af því að þeir mættu ekki í próf þó að gert sé ráð fyrir þeim í öllum undirbúningi og þeir stundi nám jafnvel í tvo mánuði. Mér þætti áhugavert að vita hvort einhverjar tímasetningar eru í loftinu um það hvenær þessari endurskoðun verður lokið eða er áætlað að ljúki og hvort ráðherra telji líklegt að sá skilningur verði ofan á að miðað verði fremur við mat skóla á einingum til að fá greitt. Þetta skiptir auðvitað máli þegar kemur að fræðsluskyldunni, að skólar geti uppfyllt hana og staðið við hana og fái greitt fyrir nemendur sem sannanlega leggja stund á nám þó að þeir mæti, sumir hverjir, ekki í próf, því að það er vissulega það sem hefur verið við að eiga í mörgum framhaldsskólum hingað til. Mig langar að fá að vita aðeins nánar um þetta og þær tímasetningar sem kunna að liggja fyrir í þessum efnum.