136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

nýtt framhaldsskólapróf og fræðsluskylda.

148. mál
[15:06]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Tímasetningar liggja í rauninni ekki fyrir og mér finnst miður að geta ekki sagt úr þessum stól að við verðum búin að endurskoða reiknilíkanið innan ákveðins tíma. Ástæðan er sú að þessi lög eru tiltölulega ný af nálinni, voru samþykkt síðasta vor, en það er mikill sveigjanleiki í þeim, ég ætla ekki að segja að hann sé algerlega nýr af nálinni en þarna er ný nálgun sem ég tel að reiknilíkansnefndin verði að skoða. Það getur vel verið að nefndin sem slík hafi aðrar skoðanir á þessu en ég. Ég tek undir að fulltrúi fjárlaganefndar situr í nefndinni og eðli málsins samkvæmt fylgist fjárlaganefnd vel með því hvernig á að útfæra reiknilíkanið, hvort reiknilíkanið sé að sinna þörfum framhaldsskólanna. Við munum að fyrir nokkrum árum var reiknilíkaninu breytt með tilliti til þess að auka vægi verknámsskóla og starfsnámsskóla. Sumir segja að það hafi verið of ýkt breyting, ákveðnir skólamenn hafa sagt það. Þetta er eitthvað sem verður að líta til. Nú verður að líta til þess þáttar hvernig reiknilíkanið ætlar að borga fyrir þá nemendur sem eingöngu verða síðan með framhaldsskólapróf. Hvernig á að greiða fyrir það? Þetta er verkefni sem ég tel að reiknilíkansnefndin eigi að fara yfir í samvinnu við bæði framhaldsskólana og ráðuneytið þannig að menn átti sig á hvernig hægt er að meta þær 90–120 einingar sem nemendur þurfa að uppfylla til að fá framhaldsskólapróf. Hluti af stefnumótuninni í kringum framhaldsskólaprófið og markmiðið með því að setja þetta fram á sínum tíma var m.a. að koma í veg fyrir brottfall. Við teljum að þetta sé sú leið, eins og t.d. Danir hafa farið, að bjóða upp á próf í framhaldsskóla sem er styttra en stúdentsprófið og það muni stuðla að því að brottfall minnki, enda er reynsla Dana af því ágæt.

Við verðum líka að leita í smiðju annarra, læra af reynslu annarra og sjá hvað setur allt til að byggja upp betra framhaldsskólakerfi.