136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

bygging tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar.

182. mál
[15:22]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Það er stórt og mikilvægt mál, bæði í nútíð og framtíð, hvernig við ætlum að haga framkvæmdum við þetta hús, hvernig við ætlum að sjá það byggjast upp. Ég veit ég deili áhuga og metnaði hv. þingmanns og fyrirspyrjanda í því efni að húsið verði klárað og verði fullbyggt af því að það er mikilvægt fyrir samfélag okkar, bæði hvað snertir atvinnuástandið núna og líka til lengri tíma hvað varðar menningu og ferðaþjónustu.

Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um tónlistarhúsið og ráðstefnumiðstöðina við Austurhöfn. Hún spyr hver staðan sé á byggingunni og hvernig ég sjái fyrir mér framhald verksins nú þegar framkvæmdaaðilar eru komnir í þrot.

Svar mitt byggist m.a. á upplýsingum sem ég leitaði eftir hjá Austurhöfn en það félag er, eins og hv. þingmaður kom inn á, sameiginlegt félag ríkis og borgar sem sett var á stofn til að koma byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins í höfn.

Stjórn og framkvæmdastjóri Austurhafnar hafa um nokkurra vikna skeið unnið að því að finna lausn á því verkefni að láta ljúka við tónlistar- og ráðstefnuhúsið. Fór sú vinna af stað um leið og ljóst þótti að eigendur Portusar, sem eru Landsbanki Íslands og Nýsir, mundu ekki geta lokið við verkið. Verulegur kostnaður er fólginn í því að ljúka verkinu og ljóst að tímaáætlanir munu raskast. Framkvæmdin er um það bil hálfnuð. Samkvæmt því mati sem nú liggur fyrir hefur hátt í 10 milljörðum kr. verið varið í bygginguna og áætlaður kostnaður við verklok er nálægt 14 milljörðum kr. að meðtöldum vaxtakostnaði á byggingartíma.

Af hálfu Austurhafnar hefur verið athugað hvort hægt sé að ljúka við byggingu hússins og koma því í rekstur á þeim grundvelli að ríki og borg standi við fyrirheit sín um framlög til verkefnisins en auki þau ekki. Niðurstaðan af því veltur á mörgu, m.a. kostnaði við yfirtöku eða kaup á félaginu eða húsinu, fjármögnun og framkvæmdakostnaði, en talið er mögulegt að fara í nokkrar sparnaðaraðgerðir sem þó eiga ekki að rýra ágæti hússins auk þess sem talið er að lengja megi verktímann þannig að húsið verði opnað í ársbyrjun 2011. Upphaflega var áætlað að það yrði gert í lok árs 2009 en síðan var því seinkað vegna ýmissa tafa fram á fyrri hluta árs 2010. Ekki er því ólíklegt að við stöndum frammi fyrir seinkun upp á ár.

Fyrst í stað voru viðræður við eigendur Portusar, þ.e. Nýsi og Fasteignafélag Landsbankans, en síðan hefur Nýi Landsbankinn eignast allt hlutafé í Portusi og hafa samningar staðið við bankann um kaup á félaginu með það í huga að fjármagna verkefnið að nýju og freista þess að ljúka því. Í því sambandi hefur m.a. verið rætt um hvernig skipa eigi eignarhaldi á nærliggjandi lóðum og það getur verið stórt atriði í þessu.

Jafnframt hafa viðræður átt sér stað við Íslenska aðalverktaka um breyttan verktíma og fleira. Haldi verkið áfram er m.a. stefnt að því að auka hlutdeild íslensks vinnuafls við verkið sem að hluta gerist sjálfkrafa þar sem margir erlendir starfsmenn hafa látið af störfum.

Herra forseti. Þessi óvissa um framhaldið er bagaleg og er stefnt að því að leiða viðræður við Nýja Landsbankann til lykta á næstunni. Ég get líka greint frá því að afar náið og gott samstarf hefur verið við borgina, bæði borgarstjóra og embættismenn borgarinnar, um framkvæmd verkefnisins alls. Ég fullyrði að það er sameiginlegur skilningur ríkis og borgar að klára húsið og það helst á þeim tíma sem fyrirhugaður var. Ef það tefst hins vegar um ár skiptir öllu máli að við höldum framkvæmdum áfram, að framkvæmdin nýtist í nútíð. Við kynntum ekki alls fyrir löngu, ríkisstjórnin, áætlun um mannaflsfrekar framkvæmdir og þetta er einmitt aðgerð af því tagi. Þetta er mannaflsfrek framkvæmd, hundruð manna eru í vinnu, sem heldur uppi atvinnustiginu og ekki síður er þetta framkvæmd sem byggir upp til framtíðar. Við byggjum undir menningu okkar, undir Sinfóníuhljómsveitina — sem vel að merkja er rétt að óska til hamingju úr ræðustóli með tilnefningu til Grammy-verðlauna í síðustu viku. Sú tilnefning undirstrikar hversu stórkostleg hljómsveitin er. En framkvæmdin er ekki síður mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna en þungi hennar mun aukast mjög á næstu árum, tónlistar- og ráðstefnuhúsið mun stuðla að því.

Ég vil vitna í þá yfirlýsingu trúnaðarráðs Eflingar og Boðans-stéttarfélags sem samþykkt var í gærkvöldi og skora á ríkisstjórnina að tímasetja mannaflsfrekar framkvæmdir. Trúnaðarráð þessara stéttarfélaga lýsa yfir þungum áhyggjum af þróun mála á undanförnum vikum og eru þau orð í takti við orð mín um að það skipti máli að halda áfram mannaflsfrekum framkvæmdum sem skila að auki fjárfestingu til lengri tíma. Ég tel brýnt að þessar framkvæmdir haldi áfram. Við þurfum að finna lausnir.