136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

skipun sérstaks saksóknara og álag á dómstóla.

[10:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svör hæstv. ráðherra. Ég tel það sem hæstv. ráðherra segir í fyrra lagi um samráðið um skipan dómarans, sé bærilegt og vonandi tekst að vinna þetta hratt þannig að verkefnið komist af stað sem allra fyrst. Það réttlætir að mínu mati vissulega að hafa frest í kjölfar auglýsingar í allra knappasta lagi og vinna þar hratt úr umsóknum og eiga síðan það samráð sem hér er lofað.

Varðandi dómstólana þá er það vissulega ljóst að meginskipan þeirra er bundinn í lögum en væntanlega skipta einnig fjárveitingar til þeirra og möguleikar til að ráða aðra starfsmenn en þá sem beinlínis eru festir í lögum máli. Eftir sem áður verður að horfast í augu við að ef það stefnir stóraukin verkefni og núverandi fjöldi dómara á báðum dómstigum einfaldlega annar ekki verkefnunum og biðlistar eða halar taka að lengjast þá verðum við væntanlega að bregðast við því, því réttarríki ætlum við væntanlega að halda uppi á Íslandi þó að illa sé búið að fara með fjárhag okkar í höndunum á hæstv. ríkisstjórn.