136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

ART-verkefnið.

[10:54]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra. Þrátt fyrir að nú séu erfiðir tímar í efnahagsmálum þjóðarinnar þá langar mig að spyrja hæstv. menntamálaráðherra um ART-verkefnið. Það er verkefni sem staðið hefur yfir á Suðurlandi og hefur verið nefnt ART-verkefnið, skipulagt og unnið af skólaskrifstofu Suðurlands. Þetta er verkefni fyrir ungmenni sem af ýmsum ástæðum hafa flosnað upp úr skóla og hætt námi, jafnvel lent í afbrotum. Gaulverjabæjarskóli var upphaflega tekinn undir þessa starfsemi og þangað komu nemendur víðs vegar að á Suðurlandi til dvalar í styttri tíma. Þar fengu þeir sérstök námskeið, sérstaka meðferð ef svo má að orði komast, hjá kennurum sem höfðu sérstaka þekkingu og reynslu af þessu prógrammi sem nefnist ART. Það reyndist mjög vel. Síðan hefur þetta þróast í þá átt að búið er að þjálfa upp um 150 manna teymi sem er starfandi í grunnskólum og skólunum almennt á Suðurlandi og vinnur eftir þeirri aðferð sem þarna um ræðir sem reynist mjög vel.

Komið hefur í ljós að verkefnið tengist í raun fleiri ráðuneytum en bara menntamálaráðuneytinu. Mig langaði að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvernig hún sjái þetta verkefni í kerfinu í heild sinni, innan menntamála-, dómsmála-, félagsmála- og heilbrigðismálakerfisins.