136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

ART-verkefnið.

[10:56]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kjartani Ólafssyni fyrir að vekja athygli á þessu merkilega tilraunaverkefni sem hefur verið í gangi og er samstarfsverkefni ríkis, velferðarsjóðs og sveitarfélaga. Ríkið borgar 40%, þar af menntamálaráðuneytið 8 millj. kr. og sveitarfélögin á Suðurlandi borga 60%. Þessu tilraunaverkefni lýkur núna um áramótin og þá blasir við að spyrja hvert framhaldið verði. Ég hef sagt að þetta verkefni gæti verið verkefni sem yrði fyrirmynd fyrir önnur landsvæði því þetta hefur tekist vel. Það er líka rétt að meginþungi þessa verkefnis hvílir kannski ekki beint á menntamálunum sem slíkum en um leið vil ég undirstrika að menntamálin eru leið til að koma fólki út úr ákveðnum erfiðleikum í lífinu og því má segja að menntun sé ákveðið úrræði sem við eigum að bjóða upp á.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, þetta er samstarfsverkefni margra aðila. Okkur hefur gefist ágætlega að taka þátt í slíkum samstarfsverkefnum og ég tel mikilvægt og brýnt að við förum vel yfir þetta. Málið síðar mun verða lagt í hendurnar á fjárlaganefnd og við vitum alveg hvernig aðstæður eru þar núna. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni þá eru vissulega erfiðir tímar en það eru ákveðin verkefni sem við þurfum að fara vel yfir því þótt þau séu kostnaðarsöm um stundir þá geta þau til lengri tíma geta skilað sér margfalt inn í samfélagið. Við skulum því fara vel yfir þetta verkefni og gera það saman.