136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

aðgengi að menntun.

[11:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Herra forseti. Gott aðgengi að menntun er ein mikilvægasta forsenda byggðar í landinu og stuðlar að nýsköpun í atvinnulífi. Sem aldrei fyrr er nú mikilvægt að efla aðgengi fólks að menntun um land allt.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fara um 1.170 millj. kr. í símenntun og fjarkennslu. Það er um 1,9% af heildarfjárveitingu menntamálaráðuneytisins. Stærstu liðirnir eru íslenskukennsla fyrir útlendinga, um 262 millj. kr., og 421 millj. kr. í námskeið og ráðgjöf. Mun lægri upphæð fer beint til miðstöðvanna eða um 9–20 millj. kr. til hverrar miðstöðvar. Þekkingarsetrin fá síðan um 22–44 millj. kr. hvert.

Þegar bein framlög til miðstöðvanna og setranna í landsbyggðarkjördæmunum eru skoðuð kemur í ljós að framlag til Suðurkjördæmis er langlægst eða um 73,6 millj. kr. Framlög til Norðausturkjördæmis eru um 85,7 og Norðvesturkjördæmis um 105 millj. kr. Munar þar allt að 31 millj. kr. Til viðbótar þessu má benda á að fjórir kröftugir háskólar fá sérfjárveitingu í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi.

Háskólafélag Suðurlands, sem er að mestu í eigu sveitarfélaga á Suðurlandi, mun hefja starfsemi á næstunni. Ekki hefur hingað til verið vilji af hálfu menntamálaráðuneytisins að koma á háskóla og þekkingarsetri á meginlandi Suðurlands. Því spyr ég: Hyggst hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, koma í veg fyrir niðurskurð á fjármagni til fræðslu- og símenntunarmiðstöðva og vinna þannig áfram að markmiðum byggðaáætlunar um eflingu þekkingarsetra, símenntunar og endurmenntunar, á landsbyggðinni?

Ég spyr líka: Hyggst hæstv. menntamálaráðherra styðja við áframhaldandi uppbyggingu þekkingarsetra með því að koma að rekstri háskólafélags Suðurlands og rétta þannig hlut Suðurkjördæmis gagnvart öðrum landsbyggðarkjördæmum?

Þegar kreppir að í atvinnumálum er mikilvægara en áður að efla aðgengi fólks að menntun.