136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

aðgengi að menntun.

[11:02]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda, sem aldrei fyrr er mikilvægt að hafa gott aðgengi að menntun, en menntakerfið er ekki undanskilið aðhaldi í ríkisfjármálum frekar en önnur svið í samfélaginu. Ég vil hins vegar benda á að markviss uppbygging hefur verið á sviði menntamála ekki bara út frá ákveðnu svæði heldur markvisst yfir allt landið.

Á sviði framhaldsskólamála höfum við til að mynda lagt okkur fram um að reyna að tengja svæði betur við menntun, auka aðgengi að menntun. Dæmi um það er fjölbrautaskólinn á norðanverðu Snæfellsnesi. Við höldum áfram með verkefni varðandi menntaskólann við utanverðan Eyjafjörð. Við erum að skoða verkefni til að tengja skóla saman. Ný framhaldsskólalög gefa okkur tækifæri til að tengja til að mynda Suðurlandið, Vestmannaeyjar og Rangárvallasýslurnar í eitt menntakerfi. Allt er það gert til að bæta aðgang að menntun.

Síðar á dagskrá þingsins mun ég mæla fyrir frumvarpi til laga um fullorðinsfræðslu þar sem segja má að svarað sé að hluta spurningu hv. þingmanns. Þar undirstrikum við mikilvægi símenntunarmiðstöðvanna og við undirstrikum mikilvægi þess að formgera þá menntun sem tengist símenntun og endurmenntun. Við tryggjum að raunfærnimatið verði formgert á þann veg að við viðurkennum þekkingu og reynslu fólks sem hefur kannski litla formlega menntun að baki á vinnumarkaði, við viðurkennum hana í hinu formlega menntakerfi.

Hvað varðar háskólafélag Suðurlands þá fékk ég það tækifæri, og hafði mikla ánægju af, að hitta það fólk ekki alls fyrir löngu. Eðlilega munum við gera allt til þess að vera í auknu samstarfi við Suðurland. Suðurland er ekki undanskilið hvað þetta varðar og vil ég m.a. benda á að Háskóli Íslands hefur ákveðna starfsemi á Suðurlandi, á Selfossi, sem tengist jarðskjálftarannsóknum.