136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

fjárhagur og skyldur sveitarfélaga.

[11:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að í þeim efnahagshremmingum sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir um þessar mundir, verða sveitarfélögin í landinu fyrir miklum áföllum. Þau verða fyrir talsverðum tekjumissi með falli í útsvarstekjum. Þau verða fyrir falli í tekjum vegna fasteignaskatta og fasteignagjalda. Þau verða fyrir falli í tekjum vegna minnkandi lóðaúthlutana og raunar kostnaði vegna aukinna skila á lóðum. Þau verða fyrir miklum auknum kostnaði vegna aukinnar eftirspurnar í félagsþjónustu sveitarfélaga svo að dæmi sé tekið. Þannig eru áhrifin á fjárhag sveitarfélaganna við þessar aðstæður margvísleg og ljóst að þau hafa ekki sömu möguleika til að bæta sér upp þennan tekjumissi eins og ríkið hefur.

Á sama tíma er okkur öllum ljóst að það brennur á sveitarfélögunum að halda uppi grunnþjónustunni í samfélaginu og ekki síst tryggja atvinnu við þær aðstæður sem við búum nú við með vaxandi atvinnuleysi. Ég hef því verulegar áhyggjur af því hvernig sveitarfélögunum verður gert kleift að sinna því mikilvæga hlutverki sínu. Ég tek eftir því að í tilkynningu frá ríkisstjórninni er gert ráð fyrir að sveitarfélögunum verði heimilað að hækka útsvar til að auka tekjur sínar.

Ég tók líka eftir því nú fyrr í vikunni að forsætisráðherra Noregs, sem er leiðtogi jafnaðarmanna, var að kynna aðgerðir norsku ríkisstjórnarinnar. Þar er farin sú leið að ríkið tryggir sveitarfélögunum tekjur í samræmi við tekjutapið af útsvarinu til þess að þau geti haldið uppi þjónustunni sem er svo mikilvæg til þess að halda uppi atvinnu og tryggja efnahagsstarfsemina út um allt land.

Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra, ráðherra sveitarstjórnarmála, hvort hann sé ekki sammála mér í því að heppilegt hefði verið að fara þá leið við þær aðstæður sem við búum við í dag.