136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

peningamarkaðssjóðir.

[11:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mjög margir eiga um sárt að binda eftir fall bankanna og óróa á gjaldeyrismörkuðum. Má þar nefna þá sem ákváðu að taka erlend lán til að fjármagna íbúðarkaup eða bílakaup. Svo þá sem áttu hlutabréf í bönkunum. Það voru 11 þúsund aldraðir eða þriðji hver aldraður sem átti þar hlutabréf. Þeir töpuðu 30 milljörðum sem svarar nokkurn veginn ellilífeyri Tryggingastofnunar á ári, og að meðaltali 3 milljónir. Samtals voru það um 47 þúsund Íslendingar sem töpuðu 130 milljörðum eða 3 milljörðum að meðaltali á hvern mann af þeim sem áttu þarna inni. Og loks þá sem lögðu fyrir í peningamarkaðssjóðum og hafa tapað hluta af eign sinni, um 30–40% sem er miklu minna og allt niður í 10%.

Það sem menn hafa gagnrýnt er misræmið á milli bankanna og ég hef spurt að því og fengið við því svör og ég trúi þeim að við kaup á skuldabréfum út úr þessum sjóðum og greiðslu á þeim hafi verið borgað raunvirði og það eigi jafnvel eftir að borga hluta af þeim peningum. (Gripið fram í: Er það uppi á borðinu?) Það er spurning, af hverju er það ekki uppi á borðinu? Það væri mjög æskilegt að það væri uppi á borðinu, því að það er hugsanlegt að hægt sé að borga betur þegar innheimtist af þessum skuldabréfum.

Þeir sem hafa lagt fyrir síðustu þrjú árin í peningamarkaðssjóðina eru nokkurn veginn á sléttu í krónutölu en miðað við verðbólguna hafa þeir tapað. Það er mismunandi eftir fyrirtækjum. Mér sýnist að þeir sem hafa lagt fyrir í þrjú ár í Glitnissjóðum muni tapa um 10% verðtryggt. Þeir sem hafa lagt fyrir hjá Landsbankanum tapi um 20% og hjá Kaupþingi um 3% verðtryggt.