136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

peningamarkaðssjóðir.

[11:48]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er ólíðandi að einhver leyndarhjúpur skuli vera yfir þessu máli. Hér hafa heyrst tölur upp á 200 milljarða kr. sem fóru út úr ríkisbönkunum til þessara félaga. Viðskiptaráðherra vill ekki staðfesta hvort við séum að ræða um 200 milljarða eða 100 milljarða. Við hljótum að krefjast þess að ráðherrann svari því hvaða fjármunir streymdu úr ríkisbönkunum eftir þetta hrun, bönkum sem eru í eigu almennings, íslensku þjóðarinnar. Er allt með felldu? spyr ég. Er ástæða til að við ætlum að allt sé með felldu? Hvaða fréttir erum við að heyra innan úr bönkunum, hvaða fréttir af endurskoðendum bankanna? Er nema von að við spyrjum hér spurninga og er nema von að við krefjumst svara frá hæstv. ráðherra?

Í öðru lagi er náttúrlega merkilegt að hlusta á ráðherra samkeppnismála verja það að bankarnir skyldu á sama degi, allir, hafa keypt þessi bréf. Og hvernig var það? Jú, Nýi Glitnir keypti í sjóðum Glitnis, Nýja Kaupþing keypti í sjóðum Kaupþings — er þetta einhver tilviljun? Eiga ekki að vera einhverjir kínamúrar þarna á milli? Svo kemur ráðherra samkeppnismála og ver þennan gjörning, segir að hér sé allt með felldu. Nei, takk fyrir, hæstv. forseti, þetta gengur ekki. Ég tek undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, við þurfum að fá skýrslu um þetta mál, það dugar ekki ein utandagskrárumræða. Ráðherrann þarf að svara hér mörgum spurningum og hann þarf líka að svara því fólki sem hann lofaði að jafnræðis yrði gætt á milli þeirra sem áttu í viðskiptum við þessa peningamarkaðssjóði. Það er búið að svíkja það loforð ef hann ætlar að standa á því að ekkert verði gert varðandi það fólk sem situr eftir með sárt ennið, (Forseti hringir.) hæstv. forseti. Og það eru aum svör frá hæstv. ráðherra og frá Samfylkingunni hér við umræðuna. (Forseti hringir.) Ætlar Samfylkingin að viðhalda einhverjum leyndarhjúpi í þessu máli?