136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

peningamarkaðssjóðir.

[11:50]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir málefnalega og yfirvegaða umræðu um þetta mál. Ég gat þess strax í upphafi að ég óskaði sérstaklega eftir að geta gert grein fyrir þessum málum við rýmri tímaskilyrði. Þingmaðurinn Kristinn H. Gunnarsson tók undir það og það er alveg sjálfsagt að leita leiða til þess, eins og ég gat um í upphafi. Þetta er mjög yfirgripsmikið mál.

Að sjálfsögðu á ekki að viðhalda leyndarhjúpi yfir þessu máli, fjarri lagi. (Gripið fram í.) Ég hef aldrei borið því við, hvenær hef ég nefnt það? (ÁI: Í svari …) Ég hef aldrei nokkurn tímann borið því við hér í stól á Alþingi. Það sem öllu skiptir, og ég hef hvatt bankana til að gera, er að birta uppgjör sjóða sinna. Það er alveg sjálfsagt að það verði gert til að undirstrika það að bankarnir borguðu raunvirði fyrir þessa sjóði og uppgjörið fór fram á viðskiptalegum forsendum. Svarið við því af hverju uppgjörið fór fram samtímis er ákaflega einfalt og hefur komið fram mörgum sinnum í þessari umræðu. Það var að Fjármálaeftirlitið birti tilmæli um slit peningamarkaðssjóða þar sem mælst var til þess að lausu fé yrði strax breytt í innlán en einnig greiddar sem innlán eftir því sem þær kröfur yrðu innheimtar. Sú er skýringin á því, þessum tilmælum var beint til allra fjármálafyrirtækja á Íslandi, allir bankarnir hafa nú gert upp sjóði sína fyrir utan eitt fyrirtæki, sparisjóðirnir líka. Hæsta útgreiðsluhlutfallið í sparisjóði var, held ég, 97%, sem var mjög hátt og gott hlutfall. Ég nefndi það hér áðan að vandinn við aðkomu að uppgjöri annarra félaga fyrir ríkið er nákvæmlega út af jafnræðissjónarmiðum og pólitískri aðkomu að viðskiptalegum forsendum í þessu máli. Eins og ég nefndi gæti lausnin að einhverju marki falist í því að stóru bankarnir taki þátt í fjármögnun á kaupum rekstraraðila annarra sjóða, á verðbréfum (Forseti hringir.) úr sínum sjóðum. Slíkt ætti að ganga langt í að bæta þann aðstöðumun sem er á milli stærri og smærri fjármálafyrirtækja við að veita viðskipta... (Forseti hringir.) Það nefndi ég hér áðan sem eina hugsanlega leið til að leysa úr því flókna máli (Forseti hringir.) sem lýtur að þessu eina félagi í lokin.