136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[12:11]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum nýtt frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. Eins og þingmönnum er vel kunnugt eru ekki margir dagar eftir af starfsáætlun þingsins. Þetta mun vera næstsíðasti dagurinn samkvæmt útgefinni starfsáætlun og ekki höfum við séð neina nýja þó svo að við vitum fullvel að hér verði unnið sennilega fram undir jól og jafnvel fram að gamlársdegi. Þetta segi ég í upphafi máls míns vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra gat um það í lokaorðum sínum að menntamálanefnd færi vel yfir ákveðna þætti þessa máls sem ég tel fulla ástæðu til, en jafnframt hangir það yfir okkur að samþykkja þarf þessi lög fyrir áramót svo hægt sé að gera þær breytingar á þeim nefskatti eða útvarpsgjaldi sem mælt er fyrir um í frumvarpinu og er nauðsynlegt að fari í gegn. Ég vil því meina að okkur sé ansi þröngur stakkur skorinn en mun þó ekki láta mitt eftir liggja í menntamálanefnd til að koma þeim sjónarmiðum á framfæri sem ég tel nauðsynlegt að haldið verði fram.

Það eru mörg álitamál í þessu. Sjálf hef ég átt sæti í starfshópnum sem starfað hefur undanfarnar vikur og skipaður var af hæstv. menntamálaráðherra og var falið það hlutverk að fara yfir álit Samkeppnisstofnunar sem gefið var út 14. nóvember sl. og fjallar um stöðu og háttsemi Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Hæstv. ráðherra skipaði hóp sem í eiga sæti fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkunum og ég vil segja að það sé ný nálgun og með betri brag en oft áður í málefnum Ríkisútvarpsins því að eins og menn rekur minni til sem hér hafa setið fleiri missiri en þetta kjörtímabil hafa staðið hér harðvítugar deilur um málefni Ríkisútvarpsins. Þó að stjórnarandstaðan hafi átt aðkomu að málefnum fjölmiðla almennt hefur henni beinlínis verið haldið frá þeirri aðkomu sem nauðsynleg hefur verið varðandi Ríkisútvarpið. Ég vil því þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir að hafa sýnt þau merki sem hún nú gerir um breytingu á því vinnulagi og tek ég með glöðu geði að mér að sitja í þeim starfshópi sem nú situr jafnvel þó að starfssvið hans verði útvíkkað og honum verði falið að fara út í að skoða eignarhald á fjölmiðlum.

Hitt vil ég undirstrika að starfshópurinn sem hefur starfað undanfarnar vikur hefur ekki komist að neinni niðurstöðu. Það hefur viljað bera á því í fjölmiðlum að tillögur þær sem fólgnar eru í frumvarpi ráðherrans séu gerðar að tillögum nefndarinnar en það er ekki rétt því að nefndin hefur engum tillögum skilað. Hið rétta er að við höfum tekið á móti mjög mörgum gestum og talsvert mikið af gögnum hefur orðið til í vinnu starfshópsins og þau gögn hefur hæstv. ráðherra notað við samningu frumvarpsins svo að því leytinu til má segja að vinna hópsins hafi gagnast vel við samningu frumvarpsins. Ég hef þó haft allan fyrirvara á öllum niðurstöðum og tel mig því engan veginn bundna af þeim hugmyndum sem talað er fyrir hér.

Ég sagði áðan að álitamálin í þessu máli væru mörg, t.d. nefskatturinn, og þar rifjast upp þau gömlu átök sem fóru fram um það mál þegar afnotagjald Ríkisútvarpsins var í raun og veru dæmt ónýtt af fyrri ríkisstjórn og lagt til að sett yrði á útvarpsgjald sem innheimt væri með svipuðum hætti og innheimt er gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, þ.e. í gegnum skattkerfið, og þá mundi ýmislegt sparast og kannski væru ákveðnir kostir við þetta kerfi en þó væru á því mjög alvarlegir gallar. Hugsunin var sú að núverandi afnotagjald mundi í raun og veru deilast upp á einstaklinga þannig að meiningin var að skatturinn, þ.e. nefskatturinn eða útvarpsgjaldið, kæmi ekki verr út fyrir meðalfjölskyldu en afnotagjaldið gerir í dag. Þeirri hugmyndafræði hefur verið haldið. Ég fagna því en vil hins vegar minna á þá leið sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs héldum fram og hefur aldrei verið skoðuð til hlítar og við teljum enn færa og betri leið en þetta útvarpsgjald, þ.e. að tengja útvarpsgjaldið eða afnotagjaldið við fasteignir og innheimta það með fasteignagjöldum. Það hefur verið prófað í einhverju nágrannalanda okkar og hefur eftir því sem ég hef kynnt mér reynst vel. Ég hefði talið að þetta væri eitt af því sem menntamálanefnd gæti litið til ef hún hefði nægan tíma sem ég, eins og ég sagði í upphafi máls míns, efast um að hún hafi nú. Ég geri því ráð fyrir að við sitjum uppi með útvarpsgjald sem er hugsað er eins og hér er lagt til.

Ég minni á að þeir sem eru orðnir 16 ára og þéna yfir milljón á ári þurfa að greiða útvarpsgjaldið, 17.900 kr. samkvæmt frumvarpinu, og þeir sem eru atvinnulausir og þurfa að draga fram lífið á atvinnuleysistekjum og hafa samkvæmt þeim kannski liðlega 1,3 millj. á ári eða innan við 1,5 millj. þurfa að greiða þetta útvarpsgjald. Í fjölskyldu þar sem eru þrír unglingar eða ungt fólk yfir 16 ára — við þekkjum það að ungt fólk reynir að vera heima hjá sér sem lengst og í árferði eins og er núna vilja foreldrar kannski enn frekar halda unga fólkinu sínu heima — í mannmörgum fjölskyldum þar sem margt ungt fólk er í heimili, þ.e. 16 ára og kannski inn á þrítugsaldurinn, getur þetta komið afar illa niður ef þetta fólk er að afla sér einhverra tekna og skólafólk sem vinnur með skóla, framhaldsskólanemar, fer auðveldlega upp í milljón á ári. Hér eru sannarlega ýmsar gryfjur sem við þurfum að gæta að og taka þessar ákvarðanir með opin augun og fullri meðvitund.

Það eru líka álitaefni varðandi það að skerða möguleika Ríkisútvarpsins á að afla sér tekna á auglýsingamarkaði. Við vitum að Ríkisútvarpið hefur áratugum saman þurft að berjast fyrir hækkunum á afnotagjaldinu og það hefur alltaf verið með blóðugum hnúunum sem þeir sem starfa fyrir Ríkisútvarpið hafa þurft að sækja þessar hækkanir inn á Alþingi Íslendinga því að hér hafa þær verið ákveðnar. Hvers vegna hefur verið svona mikil tregða við það? Hún hefur verið vegna þess að útvarpsgjaldið er inni í vísitölu og hér hefur mikið kapp verið lagt á að halda vísitölunni niðri.

Ég lék mér að því um daginn fyrir utandagskrárumræðu sem við höfðum hér að reikna útvarpsgjaldið aftur í tímann til þess tíma þegar Stöð 2 hóf útsendingar sínar. Þá var ekki svo mikill munur á afnotagjaldi Ríkisútvarpsins og áskriftargjaldi Stöðvar 2. Áskriftargjald Stöðvar 2 var þá um 15 þúsund kr. og afnotagjald Ríkisútvarpsins 11.600 kr. Á þeim tíma sem liðinn er síðan, á þessum 20 árum, hefur áskriftargjald Stöðvar 2 hækkað um 43% umfram hækkanir sem hafa orðið á afnotagjaldi Ríkisútvarpsins. Þar að auki hefur Stöð 2 stærri hlut af auglýsingamarkaði en Ríkisútvarpið – sjónvarp. Við erum því, með þeim ákvörðunum sem hér eru lagðar til að skerða tekjur Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, að leggja enn til að Ríkisútvarpið eigi í erfiðleikum með samkeppnina við Stöð 2.

Ein af röksemdunum fyrir því að draga úr hlut Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði kemur fram í áliti Samkeppniseftirlitsins. Samkeppniseftirlitið fjallar um það að til þess að fullur samkeppnislegur jöfnuður náist þurfi RÚV að hverfa alfarið af auglýsingamarkaði. Ég vil meina að í áliti Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu þess sé fólgin ákveðin raunveruleikafirring því að þegar ég les álitið finnst mér eins og verið sé að fjalla um sjónvarpsmarkað þar sem eru sex eða sjö sjónvarpsstöðvar en nú er það ekki svo. Það eru þrjár sjónvarpsstöðvar sem hægt er að segja að berjist um þennan markað að einhverju marki og þær eiga allar í verulegum erfiðleikum með að halda sínum hlut og halda þeirri framleiðslu og þeirri starfsemi sem innt er af hendi inni á þeim. Við vitum að Skjár einn á kannski í mestu erfiðleikunum og krafa frá Skjá einum hefur verið sú að þeim gagnist ekkert annað en að farið sé að þeirri ýtrustu kröfu Samkeppniseftirlitsins að Ríkisútvarpið – sjónvarp hverfi alfarið af auglýsingamarkaði. Nú er það ekki lagt til hér heldur að farin verði ákveðin millileið. Með öðrum orðum, það er hætt við að sú leið gagnist ekki Skjá einum. Hætt er við að Skjár einn horfi fram á gjaldþrot jafnvel þótt farið sé í þessar aðgerðir. Þá eru tveir stórir aðilar eftir á markaðnum, 365, sem er alfarið í eigu eins manns, og Ríkisútvarpsins. Ekki er það mikil fjölbreytni. Nú spyr ég: Eigum við að leggjast á árar hvað þetta varðar að rýra hlut Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði til að auðvelda einni sjónvarpsstöð, hinni stöðinni sem keppir við Ríkisútvarpið, samkeppnina? Hæstv. forseti. Ég efast um það. Ég vil í öllu falli að þetta sé skoðað afskaplega vel.

Eitt af því sem talað hefur verið um í starfshópnum og menn hafa verið sammála um, fulltrúar allra flokka, er að það sé ekki hægt og ekki forsvaranlegt að rýra hlut Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði nema Ríkisútvarpinu verði bætt upp tekjutapið og þá að fullu og öllu. Allt eigið fé Ríkisútvarpsins ohf. er brunnið upp, það var yfir 800 millj. í upphafi árs 2007. 800 millj. eru farnar nánast í súginn á verðbólgubáli. Þetta eru fyrst og fremst auknar fjármagnstekjur sem stofnunin hefur þurft að bera vegna lífeyrisskuldbindinga og vegna lána sem hvíla á húseign félagsins. Það er ekki þannig að tap af rekstrinum sé svo mikið því að tapið af rekstrinum á síðasta ári var einungis 70 millj. kr. Þetta eru upplýsingar sem komu frá stjórnarformanni Ríkisútvarpsins inn á fund menntamálanefndar Alþingis í gær. Hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki sýnt á nein spil hvað þetta varðar og ríkisstjórnin hefur ekki gefið neina yfirlýsingu um að hún sé tilbúin til að aflétta þessum lífeyrissjóðsskuldbindingum og taka þær yfir á ríkissjóð eins og gert var þegar fyrirtæki eins og Flugstoðir voru stofnað. Það er annað opinbert hlutafélag sem stofnað var um líkt leyti og Ríkisútvarpið ohf. en þar voru lífeyrisskuldbindingarnar alfarið teknar yfir til ríkisins en ekki hjá ríkissjónvarpinu.

Sömuleiðis kröfurnar eða álitamálin varðandi húsið. Það mundi verða talsverður léttir ef Ríkisútvarpið losnaði við rekstur hússins yfir til Fasteigna ríkissjóðs. Þá er kannski tilefni til að rifja upp svar við fyrirspurn hv. þm. Þuríðar Backman sem hún fékk frá fjármálaráðherra í febrúar 2007 þar sem hún spurði um stefnu hins opinbera í húsnæðismálum hvað varðaði opinberar stofnanir. Í svari hæstv. fjármálaráðherra kemur fram á afar skýran hátt að það sé markmið ríkisins að sem mest af húsnæði í eigu þess verði í umsýslu aðila sem hafi sérþekkingu á viðhaldi og rekstri fasteigna og tryggi þannig að vel og faglega sé staðið að þeim málum. Þess er getið í svarinu að menntamálaráðuneytið hafi tekið ákvörðun um að færa flestar af þeim fasteignum sem heyra undir það til Fasteigna ríkissjóðs til umsýslu. Þá spyr ég, hæstv. forseti: Er þá ekki einboðið að hæstv. menntamálaráðherra beiti sér fyrir því að útvarpshúsið við Efstaleiti verði tekið undir rekstur eða umsjá Fasteigna ríkissjóðs eins og aðrar eða flestar stofnanir sem undir ráðuneytið heyra?

Ég sé að tími minn er farinn að styttast, hæstv. forseti. En mig langar til að rifja upp að þegar átökin stóðu um Ríkisútvarpið frá ársbyrjun 2005, má segja, og þangað til lögin um opinbera hlutafélagið voru samþykkt með harmkvælum, hafa menn fylgst með því út undan sér hvort eitthvað af því sem við vöruðum við í stjórnarandstöðunni á þeim tíma hafi gengið eftir. Og hvað var það sem við vöruðum við? Ég er hérna með útskrift af atkvæðaskýringu minni við lokaafgreiðslu málsins í febrúar 2007, ef ég man rétt. Þar talaði ég um að réttindi starfsmanna væru fyrir borð borin með breytingunni á rekstrarforminu og athugasemdir þeirra voru beinlínis hunsaðar í ferlinu, og enn fáum við ákall frá starfsmönnum Ríkisútvarpsins og það bendir allt til þess að það sem við vöruðum við, stjórnarandstaðan á þessum tíma, fyrir tæpum tveimur árum hafi gengið eftir. Réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins hafa verið fyrir borð borin og allt annað en hugsjónir um launajöfnuð og jafnrétti innan stofnunarinnar hafa verið iðkaðar þar, því miður.

Við töldum á sínum tíma, stjórnarandstaðan, að það væri ásetningur stjórnvalda að koma Ríkisútvarpinu í hendurnar á nánast einráðum útvarpsstjóra sem hefði bakland hjá ríkjandi stjórnvöldum. Það var búið að gefa út þær yfirlýsingar að launabil á milli starfsfólks mundi aukast þegar kjarasamningum starfsmanna yrði breytt úr miðlægum samningum á félagslegum grunni í það sem ríkisútvarpsstjórinn kallaði frjálsa samninga og allir þessir þættir, sem við vöruðum við á þessum tíma, hafa gengið eftir. Það er ríkir launaleynd í stofnuninni og langt í frá að starfsandi sé viðunandi í jafnstórri og mikilvægri stofnun. Við skulum ekki gleyma því hvaða hlutverki þessi stofnun hefur að sinna. Það er gríðarlega mikilvægt hlutverk, hlutverk sem er bundið í lög og stjórn Ríkisútvarpsins segir fullum fetum, bæði við menntamálanefnd fyrir fáeinum dögum og eins við starfshóp menntamálaráðherra, að Ríkisútvarpið hafi staðið við þjónustusamning og lagaskyldu en það sé upp á ríkið að klaga, það hafi ekki staðið við sitt.