136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[12:31]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók eftir að hv. þingmaður hafði ekki tekið afstöðu. Ég veit að hv. þingmaður vinnur af einlægni og heilindum í þessu máli því að eins og ég skynja undirtónana í máli hennar deilum við sömu markmiðum, þ.e. að hafa annars vegar öflugt ríkisútvarp og hins vegar ákveðna fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Hv. þingmaður er bæði í starfshópnum, fjölmiðlahópnum, og hv. menntamálanefnd og hefur því góð tækifæri til að koma þessum sjónarmiðum sínum að. Ég undirstrika það sem ég sagði áðan, að ef nefndin finnur aðrar leiðir til að ná þessum markmiðum breytir hún tillögunni að sjálfsögðu í þá veru. Þetta er ekki heilagt skjal heldur viðleitni til að reyna að koma til móts við þau sjónarmið sem hafa verið sett fram af hálfu Samkeppniseftirlitsins og aðila á markaði en líka sjónarmið Ríkisútvarpsins og auglýsenda. Það er vandrataður meðalvegur að koma til móts við þessi sjónarmið og ég treysti hv. þingmanni til að taka áfram af heilum hug þátt í umræðunni. Ég deili líka áhyggjum hv. þingmanns varðandi eignarhald á markaði. Þetta er varhugaverð þróun og þess vegna fær fjölmiðlahópurinn áfram það hlutverk að fara yfir eignarhaldið og hvernig hægt er að stuðla að því að fjölbreytni verði í eignarhaldi og fjölmiðlum á Íslandi. Ég efast um að við sjáum aftur þann mikla drifkraft sem var í fjölmiðlum fyrr en efnahagsástandið lagast og held að við verðum að vera það raunsæ hvað það varðar. En þá eigum við að vera tilbúin með tillögur sem stuðla að því að samkeppnin haldist og fjölbreytnin verði tryggð til að við fáum öflugt eftirlit fjórða valdsins, sem stundum hefur verið skortur á.