136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[12:33]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég skal ekki draga neitt af mér í vinnu við þetta mál í menntamálanefnd. Það hefur aldrei staðið annað til en að ég legði mig alla fram og ynni starf mitt af einlægni, eins og annars staðar þar sem ég kem að málum. En mér finnst skipta verulegu máli að ágreiningsefni okkar hæstv. ráðherra um rekstrarform Ríkisútvarpsins hefur ekki breyst. Ég er enn sömu skoðunar og ég var veturinn 2006–2007 þegar við tókumst á um breytingu á rekstrarforminu. Ég kann vel að setja fram breytingartillögu, þegar þetta frumvarp kemur aftur í þingsali, um að Ríkisútvarpinu verði aftur breytt í ríkisstofnun. Ég er enn þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpinu sé best borgið í því rekstrarformi. (Gripið fram í.) Ég legg Ríkisútvarpið algerlega að jöfnu við Þjóðarbókhlöðuna, Þjóðleikhúsið, Landsbókasafnið og Listasafn Íslands þannig að ég tel að þetta eigi að vera ein af menningarstofnununum í flórunni okkar. Þegar við horfum til markaðarins, sem Samkeppniseftirlitið og hæstv. ráðherra reyna að gera, verðum við að átta okkur á því að við erum örmarkaður. Við erum eitt minnsta málsamfélag í Evrópu og okkur ber skylda til að halda í heiðri og viðhalda og varðveita íslenska tungu og íslenska menningu. Við getum ekki gert það svo vel sé nema við eflum menningarstofnanirnar okkar. Þess vegna hef ég alltaf verið fylgjandi því að Ríkisútvarpið fái þá fjármuni sem nauðsynlegir eru til að það geti staðið veglega undir lagaskyldu sinni. Ég hef aldrei verið trúuð á að það að senda Ríkisútvarpið út á markað til að láta það kljást við einhverja einkaaðila komi til með að gefa því svo digra sjóði að það geti staðið undir þessari lagaskyldu. Þess vegna kem ég til með að rökstyðja það við 2. umr. um þetta mál að ég leggi það til að Ríkisútvarpinu ohf. verði aftur breytt í ríkisstofnun.