136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[13:47]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir spyr mig hvernig ég vilji skilgreina afþreyingarefni en gat þess um leið í ræðu sinni að eiginlega væri vart hægt að finna þá skilgreiningu. Ég get alveg tekið undir með henni, það að skilgreina annars vegar afþreyingu og hins vegar menningu eða segja að þar á milli sé einhver hyldýpisgjá eða algjör skil getum við ekki gert, að sjálfsögðu ekki. Ég hef stundum sagt að ég velti fyrir mér hvernig það leggi rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð að sýna þætti í sjónvarpinu eins og Desperate Housewives og Sopranos en þar er hins vegar um vinsæla afþreyingarþætti að ræða og ekkert við því að segja. Ef sjónvarpið sem slíkt ætlar að lifa verður það eðlilega að sinna eðlilegri afþreyingu.

Ég get alveg fallist á það sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sagði varðandi Rás 2 og það menningarlega gildi sem getur falist í því að vera með útsendingu á því sem kallað er dægurtónlist. Einni kynslóð hættir kannski til að skilgreina menningu með einum hætti en afþreyingu með öðrum hætti en þeirri kynslóð sem næst kemur. Ég ætla mér ekki það hlutverk að setja það í eitthvert samhengi en það er hins vegar sett fram sem ákveðin skilgreining í lögum um Ríkisútvarpið. Ákveðnum aðilum er þannig ætlað að skilgreina hlut eins og íslenska tungu, sögu, menningararfleifð og ýmislegt fleira. Það eru þeir aðilar sem hafa það hlutverk að feta þann meðalveg að skilgreina og gera með eðlilegum hætti grein fyrir því. Mér hefur fundist á skorta að næg rækt væri lögð við (Forseti hringir.) sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.