136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[14:08]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé mikilvægt að þetta hafi komið fram. Ég er sammála hv. þingmanni, þjóðin var sammála því að það þyrfti lög um eignarhald á fjölmiðlum. Ég studdi eindregið, og geri enn, að það eigi að setja ákveðnar rammareglur um hvernig eignarhald á fjölmiðlum eigi að vera með það að markmiði að hér verði fjölbreytni í fjölmiðlum en ekki síður aðhald af hálfu fjölmiðla. Ég held að ég og hv. þingmaður séum sammála um þetta atriði.

Það má deila um aðferðafræðina sem var sett fram á sínum tíma. Ég hef ekki dregið dul á að það hefði verið heppilegra að ná breiðu samkomulagi um frumvarpið 2004 en þetta breiða samkomulag fékkst síðan 2005, þverpólitískt samkomulag í nýrri fjölmiðlanefnd fékkst í gegn. Ég lagði fram frumvarp sem byggði á því samkomulagi en hvað gerðist? Þingið stöðvaði málið. Það fékk annað tækifæri til þess að koma heildstæðri fjölmiðlalöggjöf í gegn en stjórnarandstaðan á þeim tíma stöðvaði málið og mér finnst það miður.

Engu að síður greini ég að við hv. þingmaður erum sammála um að við eigum að halda þessu verki áfram til þess að ná fram skynsamlegri löggjöf, ekki ofstopafullri heldur skynsamlegri löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum. Ég held að það sé á ábyrgð okkar stjórnmálamanna að fylgja því eftir hvernig sem aðstæður eru í samfélaginu, því fjölmiðlar skipa og gegna mikilvægu hlutverki. Þeir verða að veita okkur aðhald hvort sem það eru stjórnmálamenn, eftirlitsstofnanir og ekki síst fyrirtæki. Þeir verða að veita fyrirtækjunum aðhald í málefnalegri umfjöllun sinni og gagnrýnni umfjöllun um þá starfsemi sem um er að ræða hverju sinni.