136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[14:19]
Horfa

Rósa Guðbjartsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir ýmislegt sem komið hefur fram hjá ræðumönnum á undan mér, t.d. varðandi það að eignarhald á fjölmiðlum skuli taka aftur til umfjöllunar á þingi og líka það hvort ríkið eigi yfirleitt að vera í fjölmiðlarekstri. En við erum að ræða þessar breytingar á lögum um Ríkisútvarpið sem nú hafa litið dagsins ljós og ég tel að þær séu fagnaðarefni. Frumvarpið er mikilvægt skref í átt til þess að rétta samkeppnisskilyrðin á fjölmiðlamarkaðnum, þar sem umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði verða nú takmörkuð, en eins og við þekkjum hafa forsvarsmenn einkareknu sjónvarpsstöðvanna kallað ákaft eftir slíkum breytingum og telja að þannig breytist og batni rekstrarumhverfi einkastöðvanna.

Samkeppniseftirlitið hefur nýlega sent frá sér álit þar sem fullyrt er að þátttaka Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði sé meginástæða þess að hér fáist ekki fleiri fjölmiðlar þrifist en raun ber vitni. Það er því sannarlega verið að stíga jákvæð skref og í raun vil ég segja að í því felist nokkurt hugrekki að leggja fram þetta frumvarp núna.

Ég get hins vegar tekið undir með þeim sem bent hafa á að tækifæri á ljósvakamiðlamarkaðnum fyrir nýja aðila til að setja fjölmiðla á laggirnar eru kannski helst á útvarpssviðinu. Það er jú talsvert umfangsminni starfsemi og því mundi það e.t.v. skapa betri rekstrarskilyrði fyrir einkaaðila og þar með auka fjölbreytni á þeim markaði ef takmarkanir á auglýsingum næðu líka til útvarps eða hljóðvarps Ríkisútvarpsins. Þetta er ábending sem ég tel að ætti að taka til skoðunar við meðferð frumvarpsins hér í þinginu. Ég tel þó að sú skelfing ætti ekki að bætast við þá sem nú er lögð til, heldur að sama markmiði mætti ná með því að dreifa þessum takmörkunum á auglýsingatíma milli hljóðvarps og sjónvarps.

Það hefur verið fullyrt að tekjutap RÚV verði umtalsvert við þessar breytingar. Aðrir benda þó á að kannski þurfi tekjutapið ekki að verða eins mikið og haldið er fram þar sem eftir álit Samkeppniseftirlitsins og fullyrðingar um undirboð á þessum markaði hafi nú vinnureglur þar að lútandi verið hertar og strangar farið eftir útgefinni verðskrá. Þetta mun tíminn leiða í ljós en við vitum auðvitað líka hvað þetta umhverfi hefur allt breyst gríðarlega á undanförnum vikum og mánuðum, mikill samdráttur í þjóðfélaginu þýðir auðvitað umtalsverðan samdrátt í auglýsingum og þá tekjutap.

Markmiðið sem stendur upp úr er að hér verði öflugt ríkisútvarp með þeim markmiðum sem það hefur í núverandi starfsemi, en jafnframt að fjölbreytni á þeim markaði verði tryggð.

Ég set hins vegar spurningarmerki við þann þátt frumvarpsins sem kveður á um að Ríkisútvarpinu sé óheimilt að afla tekna með kostun nema þegar um er að ræða tiltekna stórviðburði en eins og segir í frumvarpinu þá þurfi að skilgreina hvað séu stórviðburðir. Í frumvarpinu er tekið fram að heimildir til kostunar stórviðburða skuli kveðið á um í þjónustusamningi, samkvæmt nýrri 3. mgr. 3. gr., og gert er ráð fyrir því að nánari reglur verði settar í samninginn t.d. um innlenda íþróttaviðburði. Þetta er að mínu mati mjög mikilvægt atriði þar sem við gerum okkur grein fyrir því hvaða áhrif algjört bann eða mikil takmörkun við kostun á slíkum viðburðum gæti þýtt, t.d. vegna beinna útsendinga frá íslenskum íþróttaviðburðum, beinna útsendinga frá handboltaleikjum, körfuknattleik, knattspyrnu eða öðru slíku sem er eins og við þekkjum mjög vinsælt sjónvarpsefni en meginþorri slíkra útsendinga er einmitt mögulegur vegna kostunar.

Slíkar útsendingar Ríkisútvarpsins hafa að mínu mati mikla samfélagslega þýðingu og vitað er að íþróttahreyfingin hefur miklar áhyggjur af því að slíkar útsendingar gætu jafnvel lagst af verði kostun umtalsverðum takmörkunum háð. Um er að ræða íþróttaviðburði sem einkastöðvarnar hvort eð er sækjast yfirleitt ekki í að sýna frá og eru þær útsendingar því ekki í samkeppni við önnur útvarpsfyrirtæki. Að mínu mati er mjög mikilvægt að gæta gaumgæfilega að þessu svo tryggt verði að beinar útsendingar frá innlendum íþróttaviðburðum leggist ekki af.