136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[14:24]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Um það frumvarp sem við ræðum hér, frumvarp til laga um breyting á lögum um Ríkisútvarpið ohf., má kannski segja að þrátt fyrir að frumvarpið varði Ríkisútvarpið þá tengist það auðvitað þeirri stöðu sem nú er uppi á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að íslenski fjölmiðlamarkaðurinn hefur gengið í gegnum gríðarlega miklar þrengingar á þessu ári og ekki síst síðustu vikum og mánuðum sem stafa af þeim mikla samdrætti sem orðið hefur í íslensku efnahagslífi og hefur lýst sér í miklum niðurskurði hjá fjölmiðlunum öllum. Ég gat þess í utandagskrárumræðu sem fram fór fyrir nokkrum dögum um málefni Ríkisútvarpsins að vegna þessara þrenginga hefur yfirstjórn Ríkisútvarpsins tilkynnt að félagið muni ráðast í niðurskurð sem nemur 700 millj. kr. Þetta er gríðarlegur niðurskurður með tilheyrandi skerðingu á þeirri þjónustu sem Ríkisútvarpið veitir og uppsögnum starfsmanna. Þar fyrir utan hafa auðvitað aðrir fjölmiðlar ekki farið varhluta af því ástandi sem nú ríkir, við horfum fram á að sjónvarpsstöðin Skjárinn hefur sagt upp öllu sínu starfsfólki og það hefur verið óljóst með framtíð þess fjölmiðils. Viðskiptablaðið sem kom út fimm sinnum í viku, kemur núna út einu sinni í viku sem þýðir auðvitað mikinn samdrátt í mannahaldi hjá því fyrirtæki. Árvakur sem rekur Morgunblaðið hefur átt í erfiðleikum með að greiða starfsmönnum sínum laun á réttum tíma og þá höfum við orðið vitni að því að 365, það fjölmiðlafyrirtæki, hefur einnig átt í erfiðleikum og þurft að draga saman seglin, fyrir utan síðan þá fjölmiðla sem horfið hafa af markaðnum, eins og t.d. Blaðið. Allt þetta hefur þýtt miklar uppsagnir á fjölmiðlamarkaðnum sem eru auðvitað gríðarlega þungbærar fyrir fyrirtækin, en ekki síst og aðallega fyrir þá starfsmenn sem í hlut eiga og hafa misst vinnuna.

Það er ekkert hægt að draga fjöður yfir það að staðan á íslenskum fjölmiðlamarkaði er grafalvarleg og óljóst hver framtíð þessara fjölmiðla verður, vonandi er hún björt til framtíðar en það eru miklir erfiðleikar sem nú steðja að og dynja á þessum fyrirtækjum.

Þetta frumvarp helgast að sínu leyti af þessu ástandi og því er ætlað að reyna að bregðast við þeim aðstæðum sem ég hef nú lýst, jafnvel þótt það varði einungis Ríkisútvarpið. Það tengist að sama skapi tillögum og umræðum sem farið hafa fram í starfshópi sem hæstv. menntamálaráðherra skipaði, þeim starfshópi var ætlað að fara yfir fjölmiðlamarkaðinn, stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og eignarhald á fjölmiðlamarkaði. Ég hef átt sæti í þessari nefnd og við höfum velt fyrir okkur hvernig best sé að bregðast við þeirri stöðu sem nú er uppi. Það má segja að þau sjónarmið sem hafa verið rædd í nefndinni endurspeglist í ákvæðum þessa frumvarps, ekki síst hvað varðar þær reglur sem lúta að auglýsingum og heimildum Ríkisútvarpsins til að afla sér tekna með auglýsingum.

Þegar við fengum þetta mál til umfjöllunar og úrlausnar var ljóst að allir fjölmiðlarnir sem reknir eru á Íslandi voru í erfiðleikum. Ég hef heyrt í umræðunum hér að skiptar skoðanir eru um þær leiðir sem farnar eru varðandi heimildir Ríkisútvarpsins til að afla sér tekna með auglýsingum og hvernig haga eigi auglýsingamarkaði í íslenskri fjölmiðlun. Það er eðlilegt vegna þess að eins og staðan er á íslenskum fjölmiðlamarkaði er ekki hægt, það er nauðsynlegt að segja það, að finna einhverja eina patentlausn sem virkar fyrir alla. Ég hygg að eins og staðan er núna sé það þannig, hæstv. forseti, að hvernig sem menn bregðast við séu einstakir fjölmiðlar, einstakir stjórnmálamenn eða aðrar stéttir í þjóðfélaginu sem geta bent á að öðruvísi ætti að fara að. Sú niðurstaða sem kemur fram í þessu frumvarpi er hins vegar að mínu mati heiðarleg tilraun til þess að reyna að bregðast við aðstæðum sem uppi eru á íslenskum fjölmiðlamarkaði til að reyna að tryggja að hér sé fjölbreytt fjölmiðlun og til að reyna að tryggja að þeir fjölmiðlar sem nú starfa á markaði geti gert það áfram.

Í frumvarpinu er lagt til að heimildir Ríkisútvarpsins til að afla sér tekna með sölu á auglýsingum í sjónvarpi verði skertar. Meginreglan er sú að hlutfall auglýsinga á daglegum útsendingartíma í sjónvarpi megi ekki vera meiri en 10%, en á kjörtíma 5%. Það er auðvitað ljóst að hér er um töluverða skerðingu að ræða. Það eru uppi sjónarmið um að ekkert eigi að hreyfa við núverandi fyrirkomulagi. Þá vakna ýmsar spurningar t.d. hvort eðlilegt sé að Ríkisútvarpið sem hefur mikla meðgjöf frá skattgreiðendum og ríkinu taki fullan þátt í samkeppni við einkarekna fjölmiðla á auglýsingamarkaði sem treysta, varðandi tekjuöflun sína, ekki síst á sölu auglýsinga.

Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á í ræðu sinni þá er vandséð að slíkt samkeppnisumhverfi sé sanngjarnt eða gangi yfirleitt upp fyrir einkaaðilana í samkeppni við ríkið.

Síðan eru aðrir þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpið eigi ekki að vera á auglýsingamarkaði. Það eru menn sem segja að ef menn á annað borð séu þeirrar skoðunar að ríkið eigi að reka fjölmiðil sé lágmarkskrafa að það taki ekki þátt í samkeppni við einkaaðila um sölu á auglýsingum. Ég get sagt fyrir mína hönd að ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að meðan menn eru almennt sammála um að ríkið reki fjölmiðil sé lágmark að það afli sér ekki tekna með sölu auglýsinga.

Eins og staðan er á íslenskum fjölmiðlamarkaði er kannski dálítið erfitt að kippa Ríkisútvarpinu í einni svipan út af auglýsingamarkaði. Fyrir því eru ástæður, t.d. sú ástæða sem bent hefur verið á að samþjöppun á auglýsingamarkaði hefur verið mjög mikil á Íslandi, hún hefur aukist ef eitthvað er síðan mestu umræðurnar um samþjöppun og eignarhald á fjölmiðlamarkaði fóru fram árið 2004 þegar við ræddum um umdeilt fjölmiðlafrumvarp.

Í ljósi þessarar samþjöppunar vaknar sú spurning hvort eðlilegt sé að færa auglýsingamarkaðinn í hendur fárra aðila sem eiga fjölmiðlana. Þessum spurningum þurfum við auðvitað að velta fyrir okkur þegar við fáum málið til meðferðar í hv. menntamálanefnd.

Það er annað sjónarmið sem verður að líta til vegna þess að auglýsingar í sjónvarpi varða ekki einungis fjölmiðlana sjálfa, heldur þá sem hafa atvinnu af því að framleiða auglýsingar. Því sjónarmiði hefur t.d. verið dreift til þeirra sem fjalla hvað mest um þessi mál að sjónvarpsauglýsingar á besta tíma, kjörtíma, í sjónvarpi séu í rauninni sá markaður sem sjónvarpsauglýsingar eru framleiddar fyrir. Sjónvarpið sýnir í opinni dagskrá, hefur víða dreifingu og þar af leiðandi er markhópurinn stór. Því hefur verið haldið fram — ég er ekki að segja að það sé mín skoðun en þetta eru hlutir sem þarf að taka til skoðunar — að verði Ríkisútvarpið algjörlega tekið út af auglýsingamarkaði kippi menn stoðunum undan heilli atvinnugrein, þ.e. grein kvikmyndagerðarmanna og þeirra sem starfa í þeirri grein við að framleiða sjónvarpsauglýsingar.

Þetta eru sjónarmið sem við munum væntanlega fá að heyra í umræðu um þetta mál í nefndinni og þarf að taka afstöðu til. Þarna hangir fleira á spýtunni og varðandi þetta atriði málsins má færa fram fleiri ástæður.

Í frumvarpinu er líka kveðið á um þá meginreglu að Ríkisútvarpinu ohf. sé óheimilt að afla sér tekna með kostun, þ.e. að fá utanaðkomandi aðila til að greiða þann kostnað sem fellur til vegna einstakra dagskrárliða. Í því sambandi hefur því sjónarmiði verið haldið fram að kostun á dagskrárliðum sé tekjuöflunartæki sem sé ekki sérstaklega gagnsætt, en að sama skapi sé það þannig að þar sem Ríkisútvarpið hefur þegar einn risastóran kostanda á bak við sig, sem er ríkið sjálft og skattgreiðendur, sé óeðlilegt að Ríkisútvarpið ohf. keppi á þeim markaði við einkaaðila. En á þessu eru auðvitað líka vandkvæði eins og getið er um í greinargerð með frumvarpinu. Þar er opnað á þann möguleika að heimilt sé að sýna frá ýmsum viðburðum sem eru kostaðir, eins og stórviðburðum í íþróttum, heimsmeistarakeppni í fótbolta eða Ólympíuleikum þar sem alþjóðlegir kostunaraðilar kosta viðburðinn sem slíkan. Þeir sem vilja sýna frá honum geta ekkert komist hjá að nefna hann.

Það er líka rétt sem hv. þm. Rósa Guðbjartsdóttir nefndi í ræðu sinni, að sumt sjónvarpsefni þrífst beinlínis á því að það sé kostað, t.d. útsendingar frá íþróttakappleikjum eða íþróttaviðburðum. Ég nefndi N1-deildina í handknattleik. Þetta eru hlutir sem auðvitað þarf að taka til skoðunar og menn hljóta að velta fyrir sér að ef ekki er samkeppni milli sjónvarpsstöðvanna um að sýna frá atburðum eins og þessum er spurning hvort heimilt verði að fara með þá með kostanda inn í ríkissjónvarp.

Allar þessar aðgerðir eins og ég sagði áðan beinast að því að reyna að tryggja að á Íslandi, við þær erfiðu aðstæður sem við nú búum við, þá fjárhagslegu kreppu sem herjar á landið, geti þrifist fjölbreytt fjölmiðlun. Þetta er einn þáttur í þeirri viðleitni en eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi í sinni ágætu ræðu, hv. þingmaður sem í þessum umræðum er hæstv. forseti, eru auðvitað fleiri hlutir sem þarf að taka til skoðunar, eins og eignarhald á fjölmiðlum. Ég lít þannig á að þegar við höfum lokið þessum þætti málsins fari menn að velta fyrir sér hvort ástæða sé til að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er á íslenskum fjölmiðlamarkaði varðandi eignarhald.

Ég vil að endingu benda á eitt, af því að menn hafa rætt hér um skattheimtu og þann nefskatt sem kveðið hefur verið á um, að vissulega er kveðið á um að einstaklingar á aldrinum, ef ég man rétt, 18–70 ára og lögaðilar greiði gjald til útvarpsins en hér er ekki um nefskatt að ræða í skilningi þess orðs. Nefskattur er skattur sem leggst á alla án undantekninga, líka á lítil börn eða aldraða, einstaklinga sem komnir eru yfir sjötugt. Þetta er ekki beinlínis nefskattur, við erum að ræða skatt, einhvers konar annars konar útvarpsskatt sem er skattur engu (Forseti hringir.) að síður.