136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[14:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að blanda mér stuttlega í umræðuna en tel að betur eigi eftir að ræða þetta í hv. menntamálanefnd og síðan aftur í þingsal.

Hv. þingmenn hafa farið yfir grunnforsendur málsins í dag og rætt um Ríkisútvarpið, hlutverk þess og með hvaða hætti það sinnir lögbundnum hlutverkum sínum. Við ræddum áðan um afþreyingar- og menningarhlutverk og ég ætla ekki að kafa dýpra í þá umræðu að öðru leyti en því að ég tel nauðsynlegt að standa vörð um Ríkisútvarpið og að við skilgreinum hlutverk þess breitt. Ég tel að Ríkisútvarpið sinni skyldum sínum hvað varðar íslenska menningu og tungu talsvert vel og það skipti gríðarlegu máli fyrir okkur sem viljum standa vörð um íslenska menningu og tungu að hafa hér öflugt ríkisútvarp. Ég lít á það sem eina af menningarstofnununum og vil ekki endilega gera þann skýra greinarmun á afþreyingu og menningu, sem var nefndur áðan í máli hv. þm. Jóns Magnússonar og við ræddum aðeins. Afþreying getur oft og tíðum verið ekki síður menningarleg en það sem við köllum menningu í hefðbundinni orðræðu.

Við ræðum sérstaklega um takmörkun á auglýsingum og nýtt útvarpsgjald og breytingar á því. Takmörkun á auglýsingum er grundvallarmál sem við höfum rætt í dag og varpað hefur verið upp ýmsum hliðum á því. Vissulega er það svo að víða í Evrópu tíðkast ekki að almanna- og ríkisútvörp séu á auglýsingamarkaði, nægir þar að líta til sumra Norðurlanda og Bretlands, en þar er auðvitað fjölmiðlamarkaður talsvert annars eðlis en hér og þar eru talsvert margar einkastöðvar og annars konar fyrirkomulag á því hvernig staðið er að fjármögnun viðkomandi ríkisfjölmiðils. Fjölmiðlamarkaður okkar er lítill, eins og bent hefur verið á í máli fjöldamargra hv. þingmanna, tvær stórar stöðvar, Ríkisútvarpið og Stöð 2, sem hafa tiltölulega svipaðan rekstrargrundvöll ef horft er á þá fjármuni sem fara í fjölmiðlana, á bilinu 3–4 milljarðar á hvorum stað. Svo er Skjárinn sem hefur átt í miklum erfiðleikum að undanförnu og m.a. barist mjög mikið fyrir takmörkunum á auglýsingamarkaði.

Ég tel að þetta megi ræða en deili líka þeim áhyggjum sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir varpaði fram hér áðan að nokkuð óljóst sé hvort takmarkanir muni gagnast Skjánum, svo dæmi sé tekið, og hvort við horfðum þá á ráðandi stöðu eina einkarekna ljósvakafjölmiðilsins sem væri þá eftir. Ég tel eðlilegt að við ræðum þetta í ákveðnu samhengi við eignarhald á fjölmiðlum og hvaða almennu lög og reglur við teljum að eigi að gilda um fjölmiðla og hversu nákvæmar við viljum að þær séu. Ég tel í það minnsta að eignarhald fjölmiðla verði ávallt að vera upplýst og ákveðnar reglur eigi að vera um sjálfstæði ritstjórna og fréttastofa á öllum fjölmiðlum, sama hvort þeir eru ríkisreknir eða einkareknir.

Takmarkanirnar hafa verið kynntar og áðan ræddi hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson um hagsmuni auglýsenda. Vissulega er það svo að auglýsendur og auglýsingastofur hafa efasemdir því að þetta gæti vissulega skert möguleika þeirra á að koma skilaboðum sínum á framfæri í auglýsingum og gæti virkað hamlandi fyrir auglýsingagerð og mér finnst að það sé eitthvað sem menntamálanefnd þurfi að skoða.

Ríkisútvarpið mun verða af fjármunum vegna takmarkananna og á fundi menntamálanefndar voru tapaðar tekjur vegna þeirra taldar á bilinu 350–400 millj. kr. Hér er lagt til að útvarpsgjaldið verði 17.900 kr. og hefur verið greint frá því að á því verði ákveðin hækkun umfram vísitölu sem sé ætlað að koma til móts við takmarkanirnar en þó nemur sú hækkun, frá 17.100 kr. upp í 17.900 kr., einungis u.þ.b. 189 milljónum þannig að ljóst er að hækkun á útvarpsgjaldinu dugir ekki til að koma til móts við takmarkanir á auglýsingamarkaði. Það er eiginlega það sem ég tel að við þurfum að ræða.

Við ræddum Ríkisútvarpið og 700 millj. kr. niðurskurð þar ítarlega í utandagskrárumræðu í vikunni. Niðurskurð sem var áætlaður t.d. í svæðisbundnum útsendingum, sem ég veit að margir telja eitt af lykilatriðum í þjónustu Ríkisútvarpsins við landsbyggðina. Við ræddum möguleika á að koma til móts við Ríkisútvarpið, t.d. með því að aflétta lífeyrisskuldbindingum, eins og gert hefur verið með önnur opinber hlutafélög og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór yfir í dag og nefndi sem dæmi Flugstoðir. Við ræddum einnig hina íþyngjandi húseign í Efstaleiti 1 en talsvert hefur verið rætt um að til einhverra aðgerða þurfi að grípa til að hún íþyngi ekki um of rekstri Ríkisútvarpsins.

Á sama tíma og útvarpið stendur í niðurskurði upp á 700 millj. kr. með tilheyrandi uppsögnum og launalækkunum ræðum við takmarkanir sem ekki eru bættar að fullu með hækkun útvarpsgjaldsins. Það er stóra málið sem mér finnst að þurfi að fara mjög ítarlega yfir í menntamálanefnd, þ.e. ef á annað borð á að ráðast í takmarkanir á auglýsingamarkaði og ef það verður niðurstaða menntamálanefndar út frá hagsmunum fjölmiðlamarkaðarins, auglýsenda og almennings tel ég einboðið að þá verði að bæta Ríkisútvarpinu það með innheimtu útvarpsgjaldsins.

Við höfum rætt þessa gjaldheimtu, útvarpsgjaldið, og hvernig hún mun koma við fólk í landinu en það er spurning hvort þyrfti jafnvel að hækka það enn frekar til að það komi til móts við það tekjutap sem Ríkisútvarpið verður fyrir ef takmarkanirnar taka gildi. Síðan má auðvitað velta því fyrir sér, eins og ég gerði hér áðan, hvort þetta mun duga til að bjarga einhverjum fjölmiðlum. Sumir hafa spáð því að auglýsingakakan muni sennilega minnka og það verði ekkert endilega meiru til að dreifa fyrir aðra aðila á markaði.

Við þurfum að skoða þetta og reyna að meta eins vel og við getum, en aðalpunktur minn hér — vegna þess að við ræðum þetta bara í þessu samhengi og í frumvarpinu er ekki komið inn á lífeyrisskuldbindingar eða húseignina, eins og voru gefin fyrirheit um að yrði rætt um síðar meir í utandagskrárumræðum — er að ef við samþykkjum frumvarpið tel ég að ef koma á til takmarkana þurfi að bæta þær að fullu. (Gripið fram í: Nei.) Það verður ekki gert með því að hækka upphæð útvarpsgjaldsins í 17.900 kr. Mér finnst að menntamálanefnd þurfi að meta hvort útreikningarnir eru réttir. Því hefur verið varpað fram að nær lagi væri að hafa útvarpsgjaldið 20.400 til að koma til móts við þær takmarkanir sem eru lagðar hér til. Mér finnst þá að við þurfum að meta það því að ég held að það síðasta sem við eigum að gera í því ástandi sem nú er á fjölmiðlamarkaði sé að skerða stöðu Ríkisútvarpsins. Hér ræðum við um fjórða valdið og hvaða kröfur við gerum til þess. Við hljótum að vilja tryggja Ríkisútvarpinu stöðugt rekstrarumhverfi og það gerum við ekki með því að kalla yfir þá ágætu stofnun enn frekari niðurskurð en hefur þegar orðið.